Laugardagurinn byrjaði með látum þegar sigurvegararnir í Þjóðadeildinni og Ameríkudeildinni féllu úr leik. Cincinnati Bengals skellti Tennesse Titans, 19-16, og San Francisco fór svo til Green Bay og vann frækinn sigur, 13-10, þó svo sókn liðsins hefði ekki skorað snertimark í leiknum.
Það var þó aðeins reykurinn af réttunum í gærkvöldi og nótt varð allt vitlaust. Í fyrri leik dagsins gerði LA Rams sér lítið fyrir og skellti meisturum Tampa Bay, 30-27.
Rams komst í 27-3 en Tampa kom til baka af fullum krafti með Tom Brady fremstan í flokki. Endurkoma sem minnti á þegar Brady kom til baka gegn Atlanta í Super Bowl eftir að hafa verið 28-3 undir.
Buccaneers jafnaði leikinn 27-27 er lítið var eftir en það var enn tími fyrir Rams að stela leiknum. Leikstjórnandi þeirra átti langa sendingu á útherjann Cooper Kupp sem kom liðinu í vallarmarksstöðu. Rams skoraði úr vallarmarkinu um leið og leiktímanum lauk.
Meistararnir því búnir og Tom Brady segist ekki hafa gert upp við sig hvort hann mæti aftur til leiks í haust. Hann er orðinn 44 ára gamall.
Tívolibomburnar komu svo í lokaatriðinu sem var leikur Kansas City Chiefs og Buffalo Bills. Sturlaður leikur sem Kansas vann í framlengingu, 42-36.
Dramatíkin á síðustu tveimur mínútum leiksins var með ólíkindum. Liðin skiptust þrisvar á forskotinu og spiluðu í raun fullkomlega.
Bills virtist þó vera búið að vinna leikinn með snertimarki er 13 sekúndur lifðu leiks. 13 sekúndur dugðu aftur á móti Patrick Mahomes, leikstjórnanda Chiefs, til þess að koma liðinu í vallarmarksfæri og jafna um leið og leiktíminn rann út.
Bæði Mahomes og Josh Allen, leikstjórnandi Bills, voru að spila fullkominn leik. Það vissu því allir að mikið væri undir í hlutkestinu. Hvort liðið byrjaði með boltann í framlengingunni. Það var Kansas sem vann hlutkestið.
Mahomes hafði engan áhuga á því að leyfa Allen að koma aftur inn á völlinn. Hann keyrði liðið alla leið upp völlinn og kastaði á Travis Kelce fyrir snertimarki sem kláraði leikinn. Lygilegur leikur.
Undanúrslit deildarinnar fara fram næsta sunnudag. 49ers sækir þá Rams heim en Kansas tekur á Bengals. Báðir leikir að sjálfsögðu í beinni á Stöð 2 Sport.
NFL er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NFL er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði. Beinar útsendingar frá öllum leikjum eru á NFL Game Pass sem hægt er að kaupa sem á 2.990 krónur á mánuði fyrir núverandi áskrifendur.