Óhætt er að segja að vel hafi tekist til hvort heldur er til umbúða (innréttinga) og innihalds (vínvals) því hér er sagt skilið við þá stefnu margra veitingastaða að þjóna víninnflytjendum í formi birgjasamninga. Þess í stað er lögð áhersla á upplifun viðskiptavina og verðlag er afar hóflegt svo ekki sé fastara að orðið kveðið. Nýi vínbarinn á Fiskmarkaðnum skipar sér nú í hóp með þeim veitingastöðum sem bjóða upp á besta vínúrval landsins þar sem fyrir er að finna Eiriksson Brasserie.
Af mörgu er að taka og ættu allir að fá eitthvað við sitt hæfi, jafnt sauðsvartur almúginn sem og hinn jaðarsetti hópur auðmanna sem fáir sinna. Fyrir þann hóp mætti benda á til dæmis hóflega verðlögð kampavín frá Egly Ouriet og Pierre Peters. Rauðvínið Clos des Lambrays Grand Cru 2016 er selt á heildsöluverði miðað við nýjasta árgang af sama víni sem hækkað hefur talsvert undanfarið. Eins og gefur að skilja er mikið lagt upp úr hvítvínsúrvalinu með stórkostlegum vínum frá Etienne Sauzet, Fontaine Gagnard og Bachelet Monnot. Einnig má benda á að staðurinn býður talsvert úrval af gæðavínum í glasavís.
Þegar okkur bar að garði í upphafi þorra spratt upp í samtali við barþjóna staðarins sú hugmynd hvort ekki væru líkindi með gerjuðum blámygluostum og gerjuðum hákarli. Þrátt fyrir ítrekaða leit hefur aldrei fundist drykkur sem fer vel með hákarli þó svo að margir hafi látið íslenskt brennivín duga. Þótt hákarl sé nú ekki á matseðli staðarins reyndist hið þjóðlega gómsæti vera til staðar í húsinu.
Í fyrsta skipti í sögu matargerðarlistarinnar var því ákveðið að para saman hákarl með Sauternes sætvíni frá Doisy Védrines sem kom afar vel út en gerir auðvitað kröfu á að hákarlinn höfði til braglauka viðkomandi til að byrja með. Heimsviðburður í miðbæ Reykjavíkur.
Eigendur Santé eru annálaðir nautnaseggir. Þeir verða með óreglulegar innkomur á Innherja þar sem þeir munu fjalla sérstaklega um vín og mat.