Kvennalið Barcelona spilar heimaleiki sína ekki á hinum glæsilega Nývangi eins og karlaliðið. Þær hafa spilað á Estadi Johan Cruyff þar sem b-lið Barcelona spilar líka.
Þegar varð ljóst að erkifjendurnir myndu mætast í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar tóku forráðamenn Barcelona þá ákvörðun að færa leikinn yfir á Nývang.
Estadi Johan Cruyff tekur aðeins sex þúsund manns en meira en sextán sinnum fleiri komast á Nývang. Kvennalið Barcelona hafði aðeins einu sinni fengið að spilað á Nývangi en það var þegar kórónuveiran sá til þess að enginn áhorfandi mátti vera á vellinum.
En gátu stelpurnar selt miða á leikinn? Barcelona komst fljótt að því að svarið við því var já með stórum stöfum.
Fimmtíu þúsund miðar seldust á fyrsta rúma sólarhringnum og það var orðið uppselt á leikinn eftir aðeins þrjá daga. Alls seldust allir 85 þúsund miðarnir í boði en ESPN segir frá.
Barcelona er með frábært lið og vann Meistaradeildina í fyrsta sinn á síðasta tímabili.
Hinar þrjár viðureignirnar í átta liða úrslitum Meistaradeildar kvenna eru Arsenal-Wolfsburg, Juventus-Lyon og Bayern München-PSG. Ísland á leikmenn í Wolfsburg, Lyon og Bayern München.