Frá þessu er greint í tilkynningu frá sjóðastýringarfyrirtækinu VEX en þar segir að Annata, sem var stofnað fyrir 20 árum síðan, sé alþjóðlegt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi.
Þetta er þriðja fjárfesting VEX I í hugbúnaðargeiranum frá því að sjóðnum, sem er tíu milljarðar að stærð, var komið á fót sumarið 2021 en áður hefur hann keypt í AGR Dynamics og Opnum kerfum.
Hjá Annata starfa um 200 starfsmenn á starfsstöðvum í 13 löndum. Starfsemi Annata felst í þróun og innleiðingu viðskiptahugbúnaðar í áskrift fyrir fyrirtæki í bíla- og tækjaiðnaði sem byggður er ofan á Azure skýjalausnir Microsoft. Annata hefur gert langtíma áskriftarsamninga við marga af stærstu framleiðendum og dreifingaraðilum innan þessara tveggja atvinnugreina.
Á síðustu árum hefur Annata vaxið hratt, einkum erlendis þar sem 95 prósent af tekjunum koma, eftir að fyrirtækið fjárfesti verulega í þróun á eigin skýjalausnum. Áskriftatekjur af eigin hugbúnaðarlausnum félagsins jukust um 62 prósent á milli áranna 2020 og 2021 á sama tíma og tekjuvöxtur félagsins var um 45 prósent en félagið velti rúmlega fimm milljörðum króna á síðasta ári. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) er áætluð um 1,6 milljarðar árið 2021.
Nú höfum við fengið til liðs við okkur mjög öflugan fjárfesti í VEX og við hlökkum til enn frekari vaxtar og uppbyggingar á félaginu næstu ár.
„Síðustu 5 ár hafa verið ár umbreytinga hjá félaginu þar sem við lukum grundvallar breytingum á viðskipta módeli fyrirtækisins með miklum vexti erlendis, kaupum og stofnun erlendra félaga samhliða aukinni áherslu á áskrifarsölu eigin hugbúnaðar inn í bifreiða- og tækja iðnaðinn. Þetta hefur kostað mikla fjármuni sem við höfum að öllu leyti sótt úr rekstri félagsins. Nú höfum við fengið til liðs við okkur mjög öflugan fjárfesti í VEX og við hlökkum til enn frekari vaxtar og uppbyggingar á félaginu næstu ár,“ er haft eftir Jóhanni Ólafi Jónssyni, forstjóra Annata, í tilkynningunni.
Benedikt Ólafsson, annar af stjórnendum VEX ásamt Trausta Jónssyni, segir að stofnendum og starfsfólki Annata hafi tekist að byggja upp félag sem sé leiðandi á sínu sviði á heimsvísu.
„Lausnir Annata eru hryggjastykki í rekstri viðskiptavina félagsins og mikilvægur þáttur í tæknilegri framþróun þeirra. Næstu skref félagsins í átt til frekari vaxtar eru mjög spennandi og erum við virkilega ánægð með að fá að taka þátt í þeirri vegferð með starfsmönnum félagsins,“ segir Benedikt.
Það var fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem var ráðgjafi VEX í viðskiptunum en erlendi fjárfestingabankinn Stifel var ráðgjafi Annata.
Auk þeirra Benedikts og Trausta eru aðrir eigendur VEX tryggingafélagið VÍS og Bjarni Ármannsson, fjárfestir og forstjóri Icelandic Seafood.