Uppgjör við móður hennar er óumflýjanlegt en líkfundur af ungri konu kollvarpar öllu. Aníta sogast niður dimman hyl fortíðar í leit að mögulegum fjöldamorðingja og uppgjörið breytist í martröð.
Aldís Amah fer með aðalhlutverkið í þáttunum, hlutverk Anítu. Með önnur helstu hlutverk fara Þór Tulinius sem Ragnar, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir sem Elín, Ævar Þór Benediktsson sem Gústi og Kolbeinn Arnbjörnsson sem Salomon.
Steinunn Ólína fer á kostum í þáttunum sem Elín, móðir Anítu en í síðasta þætti vakti eitt atriði nokkuð mikla athygli þegar Elín situr inni í eldhúsi að sauma út. Skilaboðin voru skýr í útsaumnum en þar stóð einfaldlega Éttu skít.
Þó Steinunn Ólína sé afar sannfærandi í hlutverki sínu og sjálf liðtæk saumakona er verkið ekki hennar. María Rún Jóhannsdóttir lánaði samstarfsfólki sínu í leikmyndadeild verkið til að nota í þáttaröðinni.
Steinunn Ólína birti sjálf mynd af sér úr tökum á þættinum á Facebook.
Í hlaðvarpinu Sandkorn ræða kvikmyndagerðarmaðurinn Baldvin Z og bíófíkillinn Tómas Valgeirsson fjórða þáttinn. Serían er hálfnuð og nú fara hlutirnir að gerast. Í þættinum fara þeir yfir vinnuálag Anítu sem er orðið gríðarlega mikið.
Kynlífssenurnar voru fyrirferðamiklar í fjórða þættinum og svo fóru þeir vel yfir umdeilda hljóðvinnslu í fyrsta þættinum af Svörtum söndum.
Sumir töluðu um það á samfélagsmiðlum að ekki heyrðist nægilega vel í samtölum í fyrsta þættinum. Nú er hægt að sjá þættina með íslenskum texta á Stöð 2+.
Hér að neðan má hlusta á hlaðvarpið í heild sinni.