Fótbolti

Heimamenn unnu opnunarleikinn | Grænhöfðaeyjar sigruðu gegn tíu leikmönnum Eþíópíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vincent Aboubakar skoraði bæði mörk Kamerún í dag.
Vincent Aboubakar skoraði bæði mörk Kamerún í dag. Ulrik Pedersen/NurPhoto via Getty Images

Afríkumótið í fótbolta hófst í dag og voru leiknir tveir leikir í A-riðli. Heimamenn í Kamerún unnu 2-1 sigur gegn Búrkína Fasó og Grænhöfðaeygjar unnu 1-0 sigur gegn Eþíópíu sem misstu mann af velli snemma leiks.

Mótið byrjaði ekki nógu vel fyrir heimamenn því þeir lentu undir á móti Búrkína Fasó þegar Gustavo Sangare kom gestunum yfir á 24. mínútu.

Útlitið batnaði þó á 40. mínútu þegar Vincent Aboubakar jafnaði metin fyrir heimamenn af vítapunktinum og Aboubakar var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar hann kom Kamerún yfir með öðru marki af vítapunktinum.

Ekkert var skorað í síðari hálfleik og niðurstaðan varð því 2-1 sigur heimamanna.

Þá mættust Eþíópía og Grænhöfðaeyjar í seinni leik dagsins þar sem þeir síðarnefndu höfðu betur 1-0.

Yared Baye fékk að líta beint rautt spjald á 12. mínútu leiksins fyrir brot sem aftasti maður. Eina mark leiksins kom svo í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Julio Tavares skallaði fyrirgjöf Garry Rodrigues í netið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×