Innlent

Loka leik­skólanum, sund­lauginni og í­þrótta­húsinu á Vopna­firði

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Leikskólinn, sundlaugin og íþróttahúsið í bænum verða lokuð á morgun.
Leikskólinn, sundlaugin og íþróttahúsið í bænum verða lokuð á morgun. Vísir/Vilhelm

Af þeim 45 sýnum sem tekin voru af íbúum og starfsfólki hjúkrunarheimilisins Sunnubúðar á Vopnafirði í morgun reyndust fimm jákvæð. Voru þau ýmist tekin af starfs- eða heimilisfólki. Leikskólinn, sundlaugin og íþróttahúsið í bænum verða lokuð á morgun.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan á Austurlandi birti á Facebook nú í kvöld. Þar segir að vegna veðurs hafi frekari sýnatökum sem fyrirhugaðar voru í kvöld verið frestað til morguns, og niðurstaðna úr þeim að vænta annað kvöld.

„Vegna óvissu um uppruna smits og að smitrakning stendur enn yfir verður lokað í leikskólanum, sundlaug og íþróttahúsinu á Vopnafirði á morgun miðvikudag og frekari upplýsinga að vænta annað kvöld.“

Þá segir að mikil áskorun verði að manna hjúkrunarheimilið og því er fólk sem telur sig geta aðstoðað við vinnu á heimilinu beðið að hafa samband við Emmu Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á heimilinu, í netfangið emma vopnafjardahreppur.is.

„Þetta er stórt verkefni og aðgerðastjórn hvetur alla þá sem einkenni hafa að mæta í sýnatöku og vera þannig þátttakendur í að takast á við þetta . Gerum þetta saman hér eftir sem hingað til,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×