Innlent

Mikil ásókn í sýnatöku: „Langflestir eru að fá svar samdægurs“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mikil ásókn hefur verið í sýnatöku en verkefnastjóri segir vel hafa gengið.
Mikil ásókn hefur verið í sýnatöku en verkefnastjóri segir vel hafa gengið. Vísir/Vilhelm

Mikil röð var í sýna­töku á Suður­lands­braut í morgun. Opið var milli 8-14 í dag en sam­kvæmt upp­lýsingum frétta­stofu biðu flestir í um klukku­tíma. Ein­hverjir hafa haft á­hyggjur af því að langan tíma taki að fá niður­stöðu úr sýnatökunni en verk­efna­stjóri segir þær á­hyggjur ó­þarfar.

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að almennt taki um átta til tíu klukkustundir að fá niðurstöðu úr PCR prófi eftir sýnatöku. Mikil ásókn hefur verið í sýnatöku síðustu daga en metfjöldi greindist smitaður af kórónuveirunni í dag, þriðja daginn í röð. Um 1.600 manns voru skráðir í sýnatöku á Suðurlandsbraut í dag.

„Það var mikil röð í morgun en það var svona aðallega út af því að það var smá hikst í að skrá fólk inn í skönnun. En það bara lagaðist eftir 45 mínútur og öll röð búin 12:30,“ segir Ingibjörg en starfsfólk tók enn fleiri sýni í gær, aðfangadag, eða um 2.000 sýni; „Þetta gekk hratt og vel fyrir sig.“

Flestir fái niðurstöðu samdægurs

Hún segir sjaldgæft að mjög langan tíma taki að fá niðurstöðu úr PCR-prófum en eitthvað gæti biðin orðið lengri yfir hátíðarnar. Margir séu í fríi en Sýkla- og veirudeild Landspítalans sér um að greina sýnin. 

Nú sá ég einhvers staðar að fólk þurfi að bíða í 36 klukkustundir, er það eitthvað sem þú kannast við?

„Það er bara búið að vera alla tíð. Það getur dregist, sérstaklega þegar það er mikið álag, en langflestir fá svar samdægurs. Átta til tíu tímar yfirleitt en svo getur náttúrulega dregist [að fá niðurstöðu] þannig að við segjum alveg 24 til 36 tíma. En langflestir eru að fá þetta miklu fyrr,“ segir Ingibjörg Salóme en bætir við að hún komi ekki að greiningu sýnanna sjálfra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×