Í tilkynningu frá Orkunni kemur fram að hægt verði að skila ruslinu við Orkustöðvar á Suðurströnd á Seltjarnarnesi, við Kleppsveg og Gylfaflöt í Reykjavík og á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði. Gámarnir eru aðgengilegir allan sólarhringinn en í þá má setja pappa, plastumbúðir og jólapappír. Hægt verður að nota þá til 29. desember.
„Við viljum samt vekja athygli á því að oft er hægt að nýta jólapappír, pakkabönd og slaufur aftur næstu jól og er það auðvitað besta endurvinnslan,“ er haft eftir Jóhönnu Margréti Gísladóttur, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Orkunnar.
„Við þekkjum öll hvernig stofan okkar lítur út eftir jólin. Við viljum einfalda líf fólks og trúum á að þetta séu þægindi framtíðarinnar. Með þessum möguleika getur fólk hent pappa, plasti og jólapappír með góðri samvisku hvenær sem hentar, jafnvel á náttfötunum á jóladag. Terra sér svo um að flokka og endurvinna það sem safnast,“ er haft eftir Jóhönnu.
Um tilraunaverkefni er að ræða og möguleiki að fjölga staðsetningum fyrir næstu jól ef vel gengur í ár.
„Við prófuðum þetta í sumar með garðaúrgang við góðar undirtektir og finnum fyrir mikilli ánægju meðal viðskiptavina okkar með þetta framtak. Garðaúrgangurinn er síðan jarðgerður og munum við bjóða moltu til viðskiptavina á næsta ári.“
