Innherji

Skiptasamningar gefa sjóðunum svigrúm á meðan þakið á erlendar eignir stendur óhaggað

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Lífeyrissjóður verslunarmanna er einn af þeim lífeyrissjóðum sem nálgast hámarkið á hlutfall erlendra eigna. 
Lífeyrissjóður verslunarmanna er einn af þeim lífeyrissjóðum sem nálgast hámarkið á hlutfall erlendra eigna.  Vísir/Hanna

Gjaldeyrisskiptasamningar mynda svigrúm fyrir lífeyrissjóði, einkum þá sem eru komnir nálægt hámarkinu á hlutfalli erlendra eigna, til að halda áfram að fjárfesta utan landsteina á meðan þeir bíða eftir að lögum um erlendar fjárfestingar verði breytt. 

„Í stuttu máli má segja að nokkrir lífeyrissjóðir séu komnir það nálægt 50 prósenta mörkunum að þeir eigi erfitt með að auka erlenda hlutdeild sína,“ segir Ragnar Björn Ragnarsson, gjaldeyrismiðlari hjá Arion banka.

„Hreyfingar á mörkuðum erlendis eða á krónunni gætu tekið þá yfir mörkin.“

Lögum samkvæmt þurfa lífeyrissjóðir að takmarka gjaldmiðlaáhættu sína með því að tryggja að minnst 50 prósent af heildareignum þeirra séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingarnar. Hlutfall erlendra eigna má því ekki fara yfir þetta hámark.

Svo dæmi sé tekið var hlutfall erlendra eigna tveggja stærstu lífeyrissjóða landsins – LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna – komið í liðlega 42 prósent um mitt þetta ár. 

Landssamtök lífeyrissjóða

Eins og Ragnar nefnir og komið hefur fram í máli forsvarsmanna lífeyrissjóða er vandkvæðum háð að fara með hlutfall erlendra eigna mikið hærra enda geta skammtímasveiflur á erlendum hlutabréfamörkuðum og gengi krónunnar ýtt hlutfallinu upp fyrir hámarkið.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur áður sagst vera hlynntur því að hækka 50 prósenta þakið þegar aðstæður leyfa. Þjóðarbúið þurfi þó að skila meiri viðskiptaafgangi.

„Þegar ferðaþjónustan kemur til baka af fullum krafti þá verða lífeyrissjóðirnir hins vegar að fara auka við erlendar fjárfestingar í eignasöfnum sínum,“ útskýrði seðlabankastjóri í samtali við Innherja um miðjan nóvember.

Þá nefndi hann að erfitt væri að hækka fjárfestingarheimildir sjóðanna í erlendri mynt án þess að um leið væri kallað eftir heildarendurskoðun á lögum lífeyrissjóðum.

„Ég held að við séum að horfa lengra fram í tímann,“ segir Ásgeir, spurður hvort til greina kæmi að hækka – eða jafnvel afnema – þetta lögbundna hámark á erlendar eignir lífeyrissjóðanna strax um áramótin.

„Ein leið sem gæti leyst þetta vandamál, þ.e.a.s. þangað til viðskiptajöfnuðu kemst í betra horf, er að lífeyrissjóðirnir geri gjaldeyrisskiptasamninga við bankana,“ segir Ragnar Björn.

Nýleg lög um gjaldeyrismál frá því í sumar heimila lífeyrissjóðum og öðrum að gera gjaldeyrisskiptasamninga við viðskiptabanka. Lífeyrissjóðirnir geta þannig keypt gjaldeyri til að fjárfesta erlendis en um leið selja þeir gjaldeyri framvirkt og hafa því hvorki áhrif á hlutfall erlendra eigna sinna né á gengi krónunnar. Auk þess fá sjóðirnir greiddan vaxtamun.

„Þeir eru í raun að lána bönkunum krónur en fá lánaðan gjaldeyri,“ útskýrir Ragnar Björn. 

„Lífeyrissjóðir gætu svo gert upp samningana eftir eitt ár þegar ferðaþjónustan og aðrar útflutningsgreinar hafa væntanlega skapað nægan viðskiptaafgang til að styrkja krónuna eða einfaldlega framlengt samningana þar til betur stendur á.“

Einu hömlurnar eru þær að heildarumfangið má ekki vera hærri upphæð en sem nemur 50 prósentum af eiginfjárgrunni bankans og hver mótaðili má ekki gera samningu um hærri fjárhæð en sem nemur 10 prósentum af eiginfjárgrunni. Fræðilega séð gæti hver sjóður því gert skiptasamninga upp á tugi milljarða króna.

Erlendar eignir lífeyrissjóða námu 2.334 milljörðum króna í lok október. Hlutfallið af heildareignum sjóðanna nam 35,5 prósentum og hefur aldrei verið hærra.

„Skiptasamningar mynd aldrei ná því umfangi að vera gjaldeyrisvörn á allar erlendu eignirnar," segir Ragnar Björn. 

„Þetta snýst frekar um að gefa lífeyrissjóðunum svigrúm þannig að þeir geti haldið áfram að fjárfesta erlendis án þess að eiga hættu á að fara yfir mörkin.“

Innan lífeyrisjóðakerfisins kann að gæta tregðu enda töpuðu sumir sjóðir talsverðum fjárhæðum á uppgjöri gjaldeyrisskiptasamninga eftir fjármálahrunið. Nefnd sem skoðaði fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna í aðdraganda fjármálahrunsins komst að þeirri niðurstöðu að nokkrir lífeyrissjóðir hefðu farið „mjög óvarlega“ í þessum efnum. 

Lífeyrissjóðirnir sem starfræktu eigin gjaldmiðlastýringu keyptu frekari gjaldeyrisvarnir árið 2008 – það bendir til þess að sjóðirnir hafi gert ráð fyrir að gengi krónunnar myndi styrkjast á árinu – og í einstaka tilfellum var varnarhlutfallið orðið allt að 90 prósent af erlenda eignasafninu.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×