Umræðan

Bíódagar á köldum klaka

Hildur Sverrisdóttir skrifar

Astraltertan stóð líklega í mörgum þegar fréttir bárust að því að í fjárlögum væri gert ráð fyrir hálfum milljarði í þróun á íslenskri streymisveitu á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og þar með íslenska ríkisins. Það var svo borið til baka en fjárlaganefnd hefur óskað eftir niðurbroti á hvernig hálfa milljarðnum skal skipt á milli verkefna og því enn á reiki hversu mikinn hluta streymisveitan á að fá af þessu fé. 

Burtséð frá áætluðu fjármagni kallar hugmynd um streymisveitu hins opinbera samt ein og sér á gagnrýnar spurningar.

Nýleg kvikmyndastefna til ársins 2030 er metnaðarfull og um margt mikilvæg. Það var tímabært að ná utan um markmið kvikmyndagerðar sem bæði er drifkraftur menningar í landinu og burðug atvinnugrein. Í stefnunni er meðal annars kveðið á um að ráðist verði í það mikilvæga verkefni að auka aðgengi og miðla upplýsingum um öll íslensk kvikmyndaverk. Íslenskur kvikmyndaarfur er dýrmætur og það er fagnaðarefni að það eigi að safna honum saman, skrásetja hann og koma réttindamálum á hreint. 

Því miður hafa ýmsir gullmolar gleymst eða týnst og mér skilst til dæmis að Vilko auglýsingin frábæra sem sýnd var á níunda áratugnum sé glötuð að eilífu.

Hins vegar er gagnrýnivert að í stefnunni segir einnig að íslensk streymisveita af hálfu hins opinbera eigi svo að dreifa téðu efni. Í frétt Kvikmyndamiðstöðvar Íslands segir, með fyrirvara um að verkefnið sé enn í mótun, að streymisveitan verði í greiðslugáttarformi eins og þekkist víða. Hér vakna spurningar um hlutverk hins opinbera bæði út frá almennum sjónarmiðum og samspil ríkisaðila og einkaaðila þar sem ríkið á ekki að vasast í því sem aðrir geta vel sinnt og einnig sértækum sjónarmiðum um hversu raunhæf þessi aðgerð væri.

Kostnaðar- áhættu- og vandasöm þjónusta sem aðrir geta veitt

Dreifing efnis er kostnaðarsöm, krefst tækniþekkingar og er í sífellt breytilegri og harðri samkeppni. Þá er ótalinn kostnaður við starfsfólk, leyfisgjöld, netþjóna og markaðssetningu.

Hins vegar ber að nefna að hið opinbera hefur einfaldlega ekki burði til að elta nýjustu tækninýjungar og á ekki eyða kröftum sínum og fjármunum í að finna upp hjól þegar brýna nauðsyn ber ekki til.

Við vitum lítið um það hvaða tækni fólk notar eftir ár eða áratugi og hvar það vill hafa aðgang að efni. Ef við til dæmis ímyndum okkur að strax í upphafi hins íslenska kvikmyndavors hefði einhver fengið þá hugmynd að hið opinbera ætti að tryggja dreifingu efnisins hefði verið gefið út veglegt safn VHS spóla til að tryggja aðgengi að kvikmyndaarfinum.

Að bjarga kvikmyndaarfinum er verðugt verkefni eitt og sér

Þegar íslenskum kvikmyndaarfi hefur verið blessunarlega bjargað frá glötun og efnið komið á snið sem býður upp á dreifingu væri nærtækara og skynsamara að leita til þeirra sem þegar hafa byggt upp alla þá dýru innviði sem þarf til slíkrar dreifingar, t.d. íslenskar streymisveitur, með sanngjörnu samkomulagi um almennt aðgengi að efninu.

Svo er auðvitað hin merkilega staðreynd að það er þegar fyrir hendi menningarvörður í íslensku samfélagi sem heitir Ríkisútvarpið sem fær yfir 5 milljarða frá íslensku þjóðinni fyrir það skilgreinda hlutverk meðal annars að safna, halda utan um og miðla íslenskum menningararfi. 

Það er ósannfærandi að í staðinn fyrir að byrja á að nýta það sem fyrir er, hvort sem er á einkamarkaði eða í Efstaleiti, eigi án frekari rökstuðnings að eyða fjármunum í að finna upp óþarfa hjól.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Streymisveita ríkisins verður „heljarinnar maskína“, segir stjórnandi hjá Nova

Ríkið mun fjárfesta að óþörfu og skapa varanlegan kostnað ef áform þess um þróun á streymisveitu verða að veruleika. Innlendar streymisveitur, sem geta tekið að sér að dreifa íslenskum kvikmyndum og þáttaröðum, eru nú þegar til staðar og ríkið þyrfti að eyða miklu púðri í að halda streymisveitunni í takt við tímann. Þetta segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova.

Streymisveita ríkisins verður „heljarinnar maskína“, segir stjórnandi hjá Nova

Ríkið mun fjárfesta að óþörfu og skapa varanlegan kostnað ef áform þess um þróun á streymisveitu verða að veruleika. Innlendar streymisveitur, sem geta tekið að sér að dreifa íslenskum kvikmyndum og þáttaröðum, eru nú þegar til staðar og ríkið þyrfti að eyða miklu púðri í að halda streymisveitunni í takt við tímann. Þetta segir Magnús Árnason, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova.




Umræðan

Sjá meira


×