„Við ætlum okkur að fagna því sem vel er gert," segir Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, stjórnarmaður í 1881 og einn helsti hvatamaður verðlaunanna.
„Atvinnulífið hefur þurft að ganga í gegnum ýmsar þrengingar undanfarin tvö ár og það hefur verið beinlínis aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig fólk og fyrirtæki hafa tekist á við erfiðleikana og sumum hverjum meira að segja tekist að vaxa. Það er full ástæða til að verðlauna það sem vel er gert. Í því felst bæði viðurkenning og hvatning,“ segir Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir og stjórnarmaður í 1881.
Viðskiptamiðillinn Innherji er svo annar bakhjarl verðlaunanna en fyrir miðlinum fara þau Hörður Ægisson og Ólöf Skaftadóttir. „Löng hefð er fyrir því hér á landi að fjölmiðlar veiti verðlaun fyrir viðskipti ársins og útnefni viðskiptamann ársins og oft koma margir til greina. Við vildum útvíkka hugmyndina og veita verðlaun í fleiri flokkum,” segir Ólöf og Hörður tekur undir.
„Flokkarnir eru fjölbreyttir og endurspegla ólíka kima atvinnulífsins. Við ætlum að veita verðlaun í átta flokkum,” útskýrir Hörður, en flokkarnir eru Spámaðurinn, Kaupmaðurinn, Samfélagsstjarnan, Tækniundrið og Rokkstjarnan.
Auk þeirra verða verðlaun veitt fyrir viðskipti ársins, viðskiptamaður ársins verður útnefndur og sérstök heiðursverðlaun íslensks atvinnulífs veitt. Tilnefningarnar í flokkunum og skilgreiningar á flokkum má sjá í tengdum greinum.
Mikið verður lagt í hátíðina, sem ekki var blásin af þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Sóttvarnir verði viðhafðar og öllum reglum fylgt. „Við, eins og atvinnulífið, ætlum að aðlaga okkur að aðstæðum," segir Svanhildur Nanna.
Stofnendur 1881 vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins
Velgjörðafélagið 1881 varð til á árinu, en hugmyndin að stofnun félagsins kviknaði hjá hópi fólks á Vinnustofu Kjarval í miðbæ Reykjavíkur í miðjum heimsfaraldri.
„Ég held að margir hafi á undanförnum 20 mánuðum velt fyrir sér stórum spurningum og sjái heiminn í öðru ljósi en áður. Það var að minnsta kosti raunin með okkur sem stofnuðum 1881 og við viljum leggja okkar af mörkum til að bæta samfélagið okkar.
Það ætlum við að gera með ýmsum hætti, styðja við einstök verkefni eða baráttumál og hvetja aðra til að gera það sama. Í fyrsta fjáröflunarverkefninu okkar söfnuðum við fé fyrir Rjóðrið, hjúkrunar- og endurhæfingardeild fyrir langveik og langveik fötluð börn, en það verkefni skilaði yfir 10 milljónum króna.
Viðskiptaverðlaun Innherja 2021: Sidekick Health, Lucinity og Arion tilnefnd sem Tækniundur ársins
Sannfærð um að næsta Össur eða Marel sé þarna úti
„Verðlaunahátíðin í næstu viku er jafnframt fjáröflunarviðburður og við ætlum okkur að safna peningum til að styðja við frumkvöðla- og sprotastarf. Slíkt starf er ómetanlegt og við sjáum áhrif þess á atvinnulífið okkar.
Stærstu fyrirtæki landsins spruttu úr slíkum farvegi fyrir nokkrum áratugum og enn í dag eru töfrar að gerast í þá veru. Í þessari viku höfum við til dæmis séð fréttir um að tvö sprotafyritæki – Kerecis og Controlant – séu um hundrað milljarða virði!
Viðskiptaverðlaun Innherja 2021: Ásta, Sindri og Arnar tilnefnd í flokknum Kaupmaður ársins
Það eru margar spennandi hugmyndir þarna úti og við viljum vökva þann frjóa jarðveg. Ég er sannfærð um að næsta Marel eða Össur er þarna úti, einhvers staðar,“ segir Svanhildur Nanna.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.