Tólf mánaða raunvöxtur skulda heimilanna var 6,5 prósent í lok september samkvæmt því sem kemur fram í minnisblaði sem nefndin birti samhliða yfirlýsingunni.
„Hagstæð vaxtakjör drífa enn eftirspurn eftir nýjum fasteignalánum en dregið hefur úr endurfjármögnun eldri lána. Greiðslubyrðarhlutföll hafa hliðrast í átt að aukinni áhættu síðustu misseri samhliða hratt hækkandi fasteignaverði og vaxtahækkunum, sérstaklega hjá fyrstu kaupendum. Veðsetningarhlutföll fyrstu kaupenda hafa einnig hækkað,“ segir í minnisblaðinu.
![](https://www.visir.is/i/E591F2B08D7C19596421734A0C60B9B646C4D5BBA37E64C7DA60454EEE316556_390x0.jpg)
Fjármálastöðugleikanefnd herti í júlí reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda og setti í september reglur um hámark greiðslubyrðarhlutfalls sem tóku gildi í byrjun desember.
„Hækkun íbúðaverðs umfram ákvarðandi þætti bendir til vaxandi ójafnvægis á íbúðamarkaði og vaxandi kerfisáhættu,“ segir í minnisblaðinu.
„Búast má við því að þessar aðgerðir, auk vaxtahækkana, muni hægja á eftirspurn á íbúðamarkaði. Framboð íbúðarhúsnæðis er þó af skornum skammti og óljóst hvenær jafnvægi muni nást á markaðnum.“
![](https://www.visir.is/i/07E60AB5211A780515294C9901899876CBA03BF5E8542237444D22D0C7F4A8BB_390x0.jpg)
Nefndin ákvað í ársfjórðungslegu endurmati á sveiflujöfnunaraukanum að halda gildi aukans óbreyttu. Ákvörðun nefndarinnar frá september um að hækka aukann úr 0 prósentum í 2 prósent mun taka gildi í lok september árið 2022.
Fjármálastöðugleikanefnd bendir á að eiginfjárhlutföll bankanna séu á bilinu 6-7 prósentum fyrir ofan þá lágmarks eiginfjárkröfu sem Seðlabankinn gerir. Bankarnir hafi því „gott svigrúm til að mæta hækkun sveiflujöfnunaraukans“ í 2 prósent. Nefndin skoðar hvert hlutlaust gildi sveiflujöfnunaraukans verði til framtíðar.
Þá ítrekar nefndin að hugað verði að rekstraröryggi greiðslukerfa og minnir rekstraraðila á mikilvægi þess að tryggja rekstrarsamfellu. „Brýnt er að áfram verði unnið að innleiðingu á óháðri innlendri smágreiðslulausn án tengingar við alþjóðlega kortainnviði.“
![](https://www.visir.is/i/53EADACDA049C9FC5804F43FD93F7BDA07226B200CA3587720290CEBDE1BBF03_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.