Kolbeinn var tekinn út úr landsliðshópnum fyrir leiki Íslands í undankeppni HM 2022 í haust eftir að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir steig fram og greindi frá ofbeldi sem hann hafði beitt hana.
Í skýrslu úttektarnefndarinnar sem var gerð opinber í gær kemur fram að Arnar hafi ekki verið par sáttur með að Kolbeinn hafi verið tekinn út úr landsliðshópnum. Innan stjórnar KSÍ var sendur tölvupóstur með yfirskriftinni „SOS Arnar er brjálaður, við þurfum að aðstoða hann.“
Í skýrslunni segir:
„Af tölvupóstsamskiptum stjórnarfólks þennan dag má ráða að Arnar Þór Viðarsson, þjálfari A-landsliðs karla, var ekki alls kostar sáttur með að stjórn hefði tilkynnt að B væri útilokaður frá landsliðinu í komandi leikjum. Þennan dag var sendur innan stjórnarhópsins tölvupóstur með efnisheitinu „SOS Arnar er brjálaður, við þurfum að aðstoða hann“. Í þeim samskiptum kemur m.a. fram að varaformenn KSÍ, Borghildur Sigurðardóttir og Gísli Gíslason, hafi síðar um kvöldið átt fund með Arnari Þór og Eiði Smára Guðjohnsen, aðstoðarþjálfara A-landsliðsins, þar sem gleymst hafi „að fara yfir næstu skref með landsliðsþjálfurunum og hvernig [eigi] að tækla framhaldið með landsliðið.“
Kolbeinn hefur ekki leikið með landsliðinu síðan síðasta sumar. Hann er markahæsti leikmaður í sögu þess ásamt Eiði Smára Guðjohnsen.
Kolbeinn, sem er 31 árs, yfirgefur IFK Gautaborg þegar samningur hans við félagið rennur út.