Innlent

Ekki Al­þingis að eigna Snorra Egils sögu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Frægt málverk Hauks Stefánssonar af Snorra Sturlusyni. 
Frægt málverk Hauks Stefánssonar af Snorra Sturlusyni.  vísir/vilhelm/haukur stefánsson

Al­þingi fer ekki með úr­skurðar­vald þegar kemur að því að eigna nafn­þekktum mið­alda­mönnum okkar glæstustu bók­mennta­verk fyrri alda, að mati Sverris Jakobs­sonar mið­alda­sagn­fræðings. Hann telur Snorra Sturlu­son lé­legan liðs­mann frjáls­hyggju­manna sem að­hyllast þá stefnu sem Hannes Hólm­steinn Gissurar­son stjórn­mála­fræði­prófessor fjallar um í nýjustu bók sinni sem kom út í fyrra.

Í bókinni Twen­ty-Four Con­servati­ve-Liberal Thin­kers, eða Tuttugu og fjórir frum­kvöðlar frjáls­lyndrar í­halds­stefnu, rekur Hannes hug­myndir tuttugu og fjögurra sögu­frægra manna og færir rök fyrir því að þeir séu frum­kvöðlar hinnar frjáls­lyndu í­halds­stefnu, sem þekkist í nú­tímanum.

Sá fyrsti sem Hannes tekur fyrir í verkinu er 12. og 13. aldar maðurinn Snorri Sturlu­son.

Snorri er fyrsti frjálslyndi íhaldsmaðurinn sem Hannes tekur fyrir í nýrri bók sinni.Forlagið

Þetta val hans hefur ef­laust farið öfugt ofan í marga mið­alda­fræðinga en jafn­vel orðið ein­hverjum til endur­mats á ís­lensku sam­fé­lagi 13. aldar og þeirri hug­mynda­fræði sem þessi þekktasti mið­alda­maður Ís­lendinga lifði eftir. Hannes hélt erindi um fyrsta kafla bókarinnar í Há­skóla Ís­lands síðasta fimmtu­dag og fékk fræði­mann úr fyrr­nefnda hópnum Sverri Jakobs­son, prófessor í mið­alda­sagn­fræði til að and­mæla sér.

Snorri andvígur alvalda konungi?

Hannes færði í erindi sínu rök fyrir því að Snorri hafi að­hyllst frjáls­lynda í­halds­stefnu og verið helsti frum­kvöðull hennar á mið­öldum. Þar tekur hann aðal­lega dæmi úr hug­myndum um konungs­valdið sem fram koma í Heims­kringlu, sem er eignuð Snorra, og per­sónu­sköpun höfundar Egils sögu á aðal­per­sónunni Agli Skalla-Gríms­syni. Sagan sé um ein­stak­linginn, skáldið og hetjuna og sé tíma­móta­verk sem sanni að ein­stak­lings­hyggjan hafi ekki fæðst á endur­reisnar­tímanum á Ítalíu.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði.vísir/vilhelm

Þar fer Hannes eftir kenningum sem fóru fyrst að láta kræla á sér á síðustu öld, um að Snorri Sturlu­son sé höfundur Egils sögu, en margir mið­alda­fræðingar hafa and­mælt harð­lega, enda er Snorra hvergi getið sem höfundar sögunnar í mið­alda­heimildum.

Úr þeim ritum má, að mati Hannesar, greina and­stöðu Snorra við konunginn sem al­vald, sem þiggur vald sitt frá guði. Hann hafi frekar verið þeirrar skoðunar að vald konunga væri sótt til þjóðarinnar og að þeir ríktu við sam­þykki þegnanna en ekki af guðs náð. Lögin væru æðsta valdið og ef konungar brytu þau mætti steypa þeim af stóli. Þessar hug­myndir séu grunnur að frjáls­lyndri í­halds­stefnu nú­tímans.

Guðrún Nordahl skrifaði þessa grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 21. desember 2002. Þar gagnrýnir hún nýlega útgáfu ritsafns Snorra Sturlusonar þar sem finna má Egils sögu og segir: „Ef við erum skotin í þeirri hugmynd að Snorri sé höfundur Egils sögu Skallagrímssonar, þá verðum við að viðurkenna að hann skrifaði ekki þá Egils sögu sem við lesum í útgáfum í dag.“Morgunblaðið

Snorri og heilög þrenning

Sverrir tók síðan til máls og and­mælti hug­myndum Hannesar um Snorra. Þar skipti hann þeim Snorra Sturlu­syni, sem við þekkjum í dag, upp í þrjá mis­munandi menn; Snorra 1, sem er höfundur Heims­kringlu, Snorra 2, sem er höfundur Egils sögu og síðast Snorra 3, sem kemur fram í sam­tíma­safnritinu Sturlungu, nánar til­tekið í Hákonar sögu og Ís­lendinga sögu, sem eignaðar eru Sturlu Þórðar­syni, frænda Snorra.

Sverrir var fljótur að benda á að síðast­nefnda heimildin, Sturlunga, væri sú lang­besta um hinn raun­veru­lega mið­alda­mann Snorra Sturlu­son í fræði­legu sam­hengi og gaf lítið fyrir hug­myndar Hannesar um að þeirri heimild væri ekki treystandi því að Sturla hefði haft horn í síðu Snorra.

Sverrir fer yfir Snorrana þrjá í svari sínu við erindi Hannesar.vísir/óttar

Þó vissu­lega væri farið að eigna Snorra Heims­kringlu á mið­öldum hafi það samt sem áður verið nokkru eftir ritunar­tíma hennar og þá væru allar hug­myndir um Snorra sem höfund Egils sögu til­tölu­lega nýjar af nálinni og „enginn mið­alda­sagn­fræðingur myndi sam­þykkja hana sem góða heimild um Snorra, jafn­vel þó að Al­þingi hafi gefið söguna út undir hans nafni“. Þar skýtur Sverrir á útgáfu Al­þingis á ritsafni Snorra Sturlusonar, sem kom út árið 2002 en Egils saga er þar gefin út í hans nafni.

Teikningar norska myndlistarmannsins Christian Krohgs af Snorra Sturlusyni hafa lengi litað hugmyndir Íslendinga af honum. En hvort ætli hann hafi séð fyrir sér Snorra 1, 2 eða 3 þegar hann teiknaði þær?Christian Krohg

„Ég vil meina að Snorri 2, sá sem semur Egils sögu, hafi allt aðra af­stöðu gagn­vart frjáls­lyndi en Snorri 1, sem semur Heims­kringlu. Hann er auð­vitað frjáls­lyndur á sinn hátt en það með allt öðrum hætti en sá sem semur Heims­kringlu,“ sagði Sverrir.

Það sé ekki ein­hlítt að Egill sé and­snúinn öllum konungum, þó hann og ætt Haralds hár­fagra Noregs­konungs eldi sannar­lega grátt silfur saman í sögunni. „En hann er ekkert and­snúinn öllum konungum. Til dæmis ekki Aðal­steini Eng­lands­konungi sem gefur Agli gull,“ sagði Sverrir og velti upp þeim lík­lega mögu­leika að and­staða sögu­hetjunnar við Noregs­konung gegndi því hlut­verki í sögunni að sýna ó­gæfu Egils, sem gengur illa að fóta sig í sam­fé­laginu.

„Ég vil benda á það að svona ein­stak­lings­hyggja sem ein­kennir Egil, hún er í rauninni tengd alls konar fyrir­bærum á mið­öldum sem eru ekki frjáls­lynd. Eins og páfa­veldinu, sem er að vilja koma á beinu sam­bandi ein­stak­lingsins við kirkjuna, það er að segja að skerða þessi hefð­bundnu fjöl­skyldu­bönd,“ sagði Sverrir. Sú ein­stak­lings­hyggja væri gjör­ó­lík þeirri sem greina má í Heims­kringlu, sem boði fremur ídeal sam­fé­lag heldur en ein­stak­linga, sem skera sig úr sam­fé­lagi manna eins og Egill.

Sverrir Jakobsson, prófessor í miðaldasagnfræði.Háskóli Íslands

Mun meira mark sé takandi á Sturlungu, sem sé sam­tíma­rit ná­komins ættingja Snorra og lýsi gjörðum hans sjálfs, heldur en Heims­kringlu og Egils sögu, sem við vitum alls ekki fyrir víst hvort séu samdar af Snorra.

„Sturla sakar hann auð­vitað um ýmis­legt. Frægast er auð­vitað það þegar Snorri og Þor­varður Þórðar­son voru mættir til að berjast við Sturlu Sig­hvats­son í Bæjar­bar­daga þá bara gerist það í upp­hafi bar­daga að Snorri kveður fé­laga sína og ríður til skips og fer til Noregs. Þetta er svona há­mark heiguls­háttar Snorra. Og í því ljósi varpa ég fram þeirri spurningu hvort Snorri sé góður liðs­maður fyrir frjáls­hyggju­menn sem vilja starfa í anda ensku Whig-stefnunnar. Hver vill hafa liðs­mann sem flýr fyrstur úr bar­daganum?“ spurði Sverrir að lokum og upp­skar hlátur á­heyr­enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×