Lífið

Co­vid bjargaði mér út úr of­beldis­sam­bandi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helgi komst út úr margra ára ofbeldissambandi.
Helgi komst út úr margra ára ofbeldissambandi. vísir/helgi ómars

Helgi Ómarsson er ljósmyndari, fyrirsæta, stýrir hlaðvarpi, skrifar pistla á Trendnet og margt fleira. Helgi er gestur vikunnar í Einkalífinu.

Fyrir nokkrum vikum opnaði hann sig um andlegt ofbeldissamband sem hann var í í nokkur ár með sínum fyrrverandi manni í Danmörku. Hann segir að það hafi tekið á að vinna sig út úr þeim aðstæðum og leið honum oft eins og fanga í sambandinu.

„Hann vildi að ég yrði reiður og hann vildi að ég myndi æsa mig. Ég er mjög rólegur gaur og það leiðinlegasta sem ég geri er að rífast. Þetta varð hægt og rólega rosalega mikið áreiti en öll þessi ár var ég rosalega blindur,“ segir Helgi sem komst út úr sambandinu og má í raun þakka Covid fyrir það.

„Ég fann að ég var lokaður inni í landi og tilhugsunin að eitthvað kæmi fyrir var hræðileg og mér leið náttúrulega alls ekki vel í Köben. Ég fattaði þarna að þetta væri leiðin mín út. Ég hafði reynt oft áður en um leið og hann fann lyktina af því að ég væri að efast eitthvað komu gjafir, ást, kynlíf og ég bara vá hann er kominn aftur. En þarna var þetta orðið mjög alvarlegt og þarna mátti ég ekki vinna þar sem ég var í vinnu þar sem við vorum send heim. Í þessum aðstæðum er allt nýtt gegn þér sem ástæða til að beita ofbeldi.“

Klippa: Einkalífið - Helgi Ómarsson

Helgi segist þarna hafa verið kominn með mikla andlega og líkamlega kvilla.

„Ég er þarna bara orðinn veikur. Ég var alltaf lasinn, ég var búinn að fitna og orðinn lélegur í líkamanum og algjörlega búinn á því. Þetta er afleiðing ofbeldis og ég kominn með mikla félagsfælni þarna. Skömmin var orðin mikil en skömmin getur ekki lifað af ef maður talar um þetta og þess vegna sit ég hérna á móti þér og tala um þetta. Ég segist þarna ætla fara til mömmu og pabba og reyna vinna eitthvað heima og segist ætla koma aftur heim eftir mánuð. Ég bóka einn miða og þegar ég kem heim leið mér eins og ég væri að koma úr fangelsi. Það var annaðhvort að fara til baka og deyja einhvern veginn, ekki í alvörunni en það mun eitthvað deyja. Þetta tókst,“ segir Helgi sem varð að skilja allt eftir í Danmörku og meðal annars hundinn sinn sem honum þykir gríðarlega vænt um.

Í þættinum talar Helgi einnig um þættina Falleg íslensk heimili, ljósmyndun, Trendnet og upphafi af þeirri síðu, hlaðvarpið hans og margt fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×