Fótbolti

Rúmensk bjórverksmiðja búin að taka frá einn bjór fyrir Arnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Auglýsingaskilti í Skopje þar sem Arnari Þór Viðarssyni er lofaður einn kaldur ef Ísland tekur stig gegn Norður-Makedóníu í dag.
Auglýsingaskilti í Skopje þar sem Arnari Þór Viðarssyni er lofaður einn kaldur ef Ísland tekur stig gegn Norður-Makedóníu í dag. Alex Nicodim/Getty Images

Rúmensk bjórverksmiðja sem styrkir karlalandslið landsins í fótbolta er búin að taka frá einn bjór fyrir Arnar Þór Viðarsson, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

Rúmenska landsliðið þarf á sigri að halda gegn Liechtenstein í dag til að eiga möguleika á sæti í umspili um laust sæti á HM sem fram fer í Katar á næsta ári. Ekki nóg með það, heldur þurfa þeir einni að treysta á hagstæð úrslit í leik Íslands og Norður-Makedóníu sem fram fer á sama tíma.

Rúmenar hafa 14 stig í þriðja sæti J-riðils, einu stigi minna en Norður-Makedónía sem sitja í öðru sæti. Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska liðsins, sagði í samtali við rúmenska fjölmiðla eftir jafntefli Íslands og Rúmeníu að þeir skulduðu sér bjór ef íslenska liðið tapar ekki gegn Norður-Makedóníu í dag.

Nú hefur rúmensk bjórverksmiðja sem styrkir rúmenska landsliðið borgað fyrir auglýsingaskilti í Skopje, höfuðborg Norður-Makedóníu, þar sem segir með stórum stöfum að bjórinn sé tilbúinn fyrir íslenska þjálfarann.

Kæri Arnar Viðarsson bjórinn er tilbúinn

Þetta stendur stórum stöfum á auglýsingaskiltinu, en eins og áður segir þurfa Rúmenar að treysta á að Ísland taki í það minnsta stig af Norður-Makedóníu í dag. Svo er spurning hvort að Arnar sjái skiltið þar sem það er staðsett fyrir utan hótel Norður-Makedóníu, en ekki Íslands, eins og líklegt er að ætlunin hafi verið.

Leikir Íslands og Norður-Makedóníu annars vegar, og hins vegar Liechtenstein og Rúmeníu hefjast klukkan 17:00 að íslenskum tíma. Það verður því um kvöldmatarleitið sem Arnar Þór Viðarsson getur innheimt rúmenska bjórinn ef vel gengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×