Innlent

Ekki grunur um að gos sé í vændum en Hekla undir smá­sjá

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ljósmynd frá Heklugosi árið 2000.
Ljósmynd frá Heklugosi árið 2000. Vísir/Vilhelm

Ekki er talin hætta á að Hekla muni gjósa eftir að jarðskjálfti af stærðinni 5,2 reið yfir Suðurlandið í dag. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa lokið fundi sínum um skjálftann og telja hann ekki tengjast Heklu beint. 

„Það voru flestir sammála um að þetta væri týpískur Suðurlandsskjálfti. Auðvitað er þetta bara nokkra kílómetra frá Heklu þannig að hún finnur fyrir þessu en þetta var ekki Hekluskjálfti,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Skjálftinn er flokkaður sem Suðurlandsskjálfti en hann reið yfir klukkan 13:21 í dag. Síðan stóri skjálftinn reið yfir hafa 150 eftirskjálftar fylgt en þeir hafa allir verið undir 3 af stærð að sögn Elísabetar. 

„Við fylgjumst mjög vel með og auðvitað setjum við Heklu undir smásjá til öryggis þó ekkert bendi nú til að gos sé yfirvofandi. En við viljum bara fylgjast vel með,“ segir Elísabet. 

Hún segir að niðurstaða fundarins hafi verið sú að ekki væri tilefni til að lýsa yfir óvissustigi almannavarna á svæðinu.

„Það var verið að ræða það en flestir voru sammála um að þetta sé ekki beint tengt Heklu. Það var ekki tilefni til að færa Heklu á gult-stig. Það er samt svolítið óþægilegt hvað þetta er nálægt þannig að við fylgjumst vel með.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×