Innlent

Metfjöldi á einum degi: Hundrað sextíu og átta greindust smitaðir í gær

Kjartan Kjartansson skrifar
Biðröð eftir sýnatöku á Suðurlandsbraut í Reykjavík.
Biðröð eftir sýnatöku á Suðurlandsbraut í Reykjavík. Vísir/Sigurjón

Hundrað sextíu og átta manns greindust smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær og hafa þeir aldrei verið fleiri á einum degi frá upphafi faraldursins. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, staðfestir fjöldann við fréttastofu.

Fyrra met var sett á fimmtudag en þá greindust 167 manns smitaðir af veirunni. Í gær var greint frá því að 117 manns hefðu greinst á sunnudegi.

Auk þeirra sem greindust smitaðir innanlands í gær reyndust fjórtán smitaðir á landamærunum.

Af þeim sem greindust smitaðir í gær voru 46% í sóttkví en 54% utan sóttkvíar við greiningu. Níutíu og einn var fullbólusettur en 76 óbólusettir.

Í gær voru 1.260 manns í einangrun með Covid-19 smit en þeir voru 1.157 daginn áður. Í sóttkví eru 2.216 en þeir voru 2.410 á sunnudag. Enn eru átján manns á sjúkrahúsi og fimm á gjörgæslu samkvæmt tölum á Covid.is, upplýsingasíðu almannavarna og landlæknis.

Lögreglan á Vesturlandi birti í morgun upplýsingar um fjölda smitaðra í umdæmi sínu. Nú eru 132 manns í einangrun á Akranesi, 23 í Borgarnesi, átta í Grundarfirði, þrír í Ólafsvík og einn í Búðardal.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×