Fótbolti

Framherji danska landsliðsins með sykursýki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kasper Dolberg verður ekki með danska landsliðinu í síðustu leikjum þess í undankeppni HM 2022.
Kasper Dolberg verður ekki með danska landsliðinu í síðustu leikjum þess í undankeppni HM 2022. getty/Ulrik Pedersen

Kasper Dolberg, framherji danska landsliðsins og Nice í Frakklandi, hefur greinst með sykursýki eitt.

Dolberg var ekki valinn í danska landsliðið fyrir síðustu leiki þess í undankeppni HM 2022. Í dag greindi hann frá því að ástæðan fyrir að hann var ekki í landsliðshópnum væri að hann hafi greinst með sykursýki eitt.

Í færslu á Instagram sagði Dolberg að fréttirnar hefðu komið á óvart en að það væri gott að vera búinn að fá skýringu á því af hverju hann hefur ekki verið eins og hann á að sér að vera undanfarnar vikur.

Læknar hafa tjáð Dolberg að með réttri meðferð ætti sykursýkin ekki að hafa nein áhrif á feril hans.

Hann sagðist hafa ákveðið í samráði við Kasper Hjulmand, þjálfara danska landsliðsins, að gefa ekki kost á sér í danska hópinn að þessu sinni. Danir mæta Færeyingum og Skotum í síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppni HM. Danska liðið tryggði sér farseðilinn til Katar með sigri á Austurríki, 1-0, í síðasta mánuði.

Dolberg, sem er 24 ára, hefur leikið 32 landsleiki og skorað tíu mörk. Þrjú þeirra komu á EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×