Fótbolti

Sjáðu ellefu mínútna þrennu Orra fyrir FCK um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson fagnar með félögum sínum í nítján ára landsliðinu á dögunum.
Orri Steinn Óskarsson fagnar með félögum sínum í nítján ára landsliðinu á dögunum. Vísir/Hulda Margrét

Orri Steinn Óskarsson sá til þess að nítján ára lið FC Kaupmannahafnar er áfram með fullt hús eftir 3-2 endurkomusigur í toppslag á móti Silkeborg um helgina.

Unglingalandsliðsframherjinn skoraði þrennu á aðeins ellefu mínútum undir lok leiksins eftir að Silkeborg komst í 2-0.

Orri Steinn skoraði fyrst úr tveimur vítaspyrnum, á 80. og 85. mínútu en sigurmarkið skoraði hann á fyrstu mínútu í uppbótartíma eftir að hafa sloppið í gegnum vörnina.

Orri hefur þar með skorað fjórtán mörk í tíu leikjum með nítján ára landsliði FC Kaupmannahafnar á þessu tímabili og liðið hefur unnið alla þessa leiki.

Orri skoraði einnig þrjú mörk í þremur leikjum með íslenska nítján ára landsliðinu í síðasta mánuði.

FCK er með 30 stig af 30 mögulegum og markatöluna 40-7. Liðið hefur átt stigum meira en næsta lið sem er núna Bröndby.

Þetta var fyrsta þrenna Orra á leiktíðinni en hann hefur skorað tvennu í fjórum leikjanna og aðeins leikið tvo leiki án þess að skora.

FCK setti myndband með mörkum Orra inn á Instagram síðu sína og má sjá þau hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×