Innlent

Aldrei fleiri greinst smitaðir á einum sólar­hring

Atli Ísleifsson skrifar
Sýnataka vegna Covid hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.
Sýnataka vegna Covid hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Vilhelm

167 greindust með kórónuveiruna innanlands hér á landi í gær. Aldrei hafa svo margir greinst með veiruna frá upphafi faraldursins í febrúar 2020.

Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á vefnum Covid.is, en fyrri metfjöldi var 154 þann 30. júlí síðastliðinn. 45 af þeim 167 sem greindust innanlands í gær voru í sóttkví við greiningu, eða 27 prósent. 122 voru utan sóttkvíar, eða 73 prósent.

1.096 eru nú í einangrun vegna Covid-19, en voru 1.015 í gær. 1.790 eru nú í sóttkví, en voru 1.129 í gær. 274 eru nú í skimunarsóttkví.

Á vefnum Covid.is segir að sextán séu nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, en voru sautján í gær. Fimm eru á gjörgæslu, líkt og í gær. Á vef Landspítala segir hins vegar að fimmtán sjúklingar liggi nú á Landspítala vegna COVID-19, allir fullorðnir. „Sex eru óbólusettir. Fjórir eru á gjörgæslu, þrír þeirra í öndunarvél (þar af einn einnig í ECMO hjarta- og lungnavél). Meðalaldur inniliggjandi er 57 ár.“

Tólf smit kom upp á landamærunum í gær – tíu virk smit í fyrri landamæraskimun og tvö í seinni landamæraskimun.

Nýgengi á smiti innanlands, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 345,0, en var 317,4 í gær. Nýgengi á smiti á landamærum er nú 25,1, en var 23,5 í gær.

Alls hafa 14.255 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá því faraldurinn hófst í lok febrúar á síðasta ári. Þá hafa 34 andlát verið rakin til Covid-19 hér á landi frá upphafi faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×