Þessi ákvörðun var tekin á fundi stjórnar norska knattspyrnusambandsins í gær. Terje Svendsen, formaður sambandsins, sagði að þetta væri rökrétt skref fyrir Norðmenn.
„VAR er komið til að vera í fótboltanum og við höfum ákveðið að taka það upp í efstu deild. Þetta er mögulegt út frá fjárhags- og tæknilegum forsendum,“ sagði Svendsen á blaðamannafundi.
VAR verður tekið upp í efstu deild karla 2023 og Svendsen greindi einnig frá því að hægt yrði að nota VAR í efstu deild kvenna frá haustinu 2023.
Terje Hauge, einn frægasti dómari Noregs fyrr og síðar, er yfirmaður dómaramála hjá norska knattspyrnusambandinu. Hann kveðst ánægður með væntanlega innkomu VAR í norska boltans.
„Árið er 2021. Miðað við tæknina sem er til staðar ættum við að taka skref fram á við og byrja að nota VAR. Það hefur verið tekið upp, eða áætlað að taka það upp, í 25 deildum í Evrópu. Við megum ekki dragast aftur úr. Það er mikið undir,“ sagði Hauge við VG.
Áður hefur verið greint frá því að VAR muni kosta norska knattspyrnusambandið á bilinu 12-18 milljónir norskra króna á ári.
Meirihluti félaganna í norsku úrvalsdeildinni var fylgjandi því að taka upp VAR og norskur toppfótbolti, hagsmunasamtök stærstu félaganna í Noregi, var á sama máli, svo lengi sem VAR verði notað rétt, prófað áður og starfsfólk fái þjálfun.