Aron og félagar byrjuðu vægast sagt illa og voru fljótt lentir sjö mörkum undir, 11-4. Liðið náði aðeins að laga stöðuna fyrir hálfleik, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 16-11, heimamönnum í vil.
Álaborgarliðið mætti grimmara til leiks í seinni hálfleik og minnkaði muninn jafnt og þétt. Þegar um fimm mínútur voru til leiksloka náðu þeir loksins að jafna metin og unnu svo að lokum virkilega sterkan eins marks sigur, 31-30.
Aron átti góðan leik í liði Álaborgar og skoraði fjögur mörk, ásamt því að leggja upp önnur fimm fyrir liðsfélaga sína.
Þá heimsóttu Ágúst Elí Björgvinsson og félagar hans í Kolding Viktor Gísla Hallgrímsson og félaga hans í GOG. Ágúst Elí varði átta skot í marki Kolding og var með um 30 prósent markvörslu, en það dugði ekki til því liðið tapaði 32-27. Viktor Gísli kom ekki við sögu í leiknum.