Sport

Anníe sigraði í fyrstu grein og situr í öðru sæti eftir daginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Annie Mist Þórisdóttir fer vel af stað á Rogue Invitational.
Annie Mist Þórisdóttir fer vel af stað á Rogue Invitational. mynd/@anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir situr í öðru sæti eftir fyrsta dag Rogue Invitational-mótsins í Crossfit. Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði fyrstu grein, en tvær greinar fóru fram í gær.

Fyrri grein dagsins heitir GORUCK en þar þurfa keppendur að leysa ýmsar þrautir með þungan bakpoka á bakinu á sem bestum tíma. Anníe kom fyrst kvenna í mark á 8 mínútum og 14 sekúndum, tæpum tuttugu sekúndum á undan Gabriela Migala sem komst næst henni.

Þuríður Erla Helgadóttir varð sjötta í greininni og Katrín Tanja Davíðsdóttir þrettánda. Í karlaflokki gerði Björgvin Karl Guðmundsson vel og lenti í þriðja sæti.

Seinni grein dagsins kallast Bella Complex, en þar keppast keppendur um að lyfta sem mestri þyngd í jafnhendingu, axlapressu, hnébegju og svo loks axlapressu aftur. 

Anníe varð sjötta í kvennaflokki, en hún lyfti 235 pundum, sem jafngildir tæpum 107 kílóum. Tia-Clair Toomey frá Ástralíu náði besta árangrinum, og lyfti sér þar með upp fyrir Anníe í efsta sæti.

Eftir daginn situr Anníe Mist því í öðru sæti Rogue Invitational með 175 stig, 15 stigum minna en Toomey í fyrsta sætinu. Þuríður Erla féll niður um eitt sæti á milli greina og situr í sjöunda sæti, en Katrín Tanja situr í 16. sæti. Björgvin Karl féll niður um fimm sæti milli greina og situr í áttunda sæti.

Í dag verður svo keppt í þremur greinum, Echo Burner, Concept2 og The Mule, en upplýsingar um greinar dagsins, sem og morgundagsins má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×