Innlent

„Við verðum bara að treysta fólki“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Þórólfur segist vona að ekki þurfi að grípa til hertra aðgerða. 
Þórólfur segist vona að ekki þurfi að grípa til hertra aðgerða.  Vísir/Vilhelm

Heldur færri greindust smitaðir af kórónuveirunni í gær heldur en dagana þar áður en áfram er þó að greinast nokkur fjöldi smitaðra. Sóttvarnalæknir segir ekki von á minnisblaði í dag og hvetur þess í stað fólk til að fara varlega um helgina.

Alls greindust 78 smitaðir innanlands í gær. Flestir voru í sóttkví við greiningu og áfram er meirihluti smita að greinast hjá bólusettum einstaklingum. Þrettán eru nú inniliggjandi á spítala, fjórir á gjörgæslu og þar af einn í öndunarvél.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir faraldurinn á nokkuð svipuðu róli og hann hefur verið undanfarna daga.

„Þetta er alla vega ekki að fara upp á við og við þurfum bara að sjá hvernig þróunin verður næstu daga, hvort þetta verði eitthvað svipað, eða hvort þetta fer eitthvað að fara niður, sem væri náttúrulega best, eða eitthvað upp á við,“ segir Þórólfur.

Hann bendir þó á að þróunin hafi verið sú í haust að faraldurinn sé í uppsveiflu og það sé varhugavert að leggja mat á tölur degi til dags. Fleiri hafi nú greinst og þurft að leggjast inn heldur en í sumar þegar gripið var til aðgerða. „Við erum á verri stað núna hvað það varðar,“ segir Þórólfur.

Í ljósi þessa gæti þurft að herða takmarkanir en Þórólfur segist þó ekki gera ráð fyrir því að skila minnisblaði til ráðherra í dag.

„Það stendur nú ekki til en við erum alltaf í stöðugu samræðum um stöðuna og þróunina. Við höfum náttúrulega verið að hvetja fólk til þess að fara varlega og gæta að þessum einstaklingsbundnum sóttvörnum og vera ekki að hópast saman,“ segir Þórólfur.

„Við erum að benda á þetta til þess að forðast það að beita einhverjum harðari aðgerðum, best væri ef við getum með því móti náð þessu niður. Við verðum bara að treysta fólki eins og við höfum alltaf gert í þessum faraldri,“ segir Þórólfur.

Ertu eitthvað áhyggjufullur yfir helginni og hvernig tölurnar verða eftir það?

„Þetta er alltaf bara spurningin um hvernig fólk hegðar sér og auðvitað verður það bara að koma í ljós eins og alltaf.“


Tengdar fréttir

Þórólfur svartsýnn og segir ekki lengur samstöðu um aðgerðir

Sóttvarnalæknir er afar svartsýnn vegna fjölda smitaðra síðustu daga. Hann óttast álag á spítalann og róðurinn sé þungur núna þegar sóttvarnaaðgerðir njóti minni stuðnings í samfélaginu, þar á meðal lítils stuðnings meðal ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×