Enski boltinn

Bróðir leikmanns Keflavíkur í byrjunarliði Liverpool í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harvey Blair í leiknum með Liverpool á móti Preston North End í enska deildabikarnum í gærkvöldi.
Harvey Blair í leiknum með Liverpool á móti Preston North End í enska deildabikarnum í gærkvöldi. Getty/Naomi Baker

Harvey Blair lék sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool í gærkvöldi þegar Liverpool liðið sló Preston út úr enska deildabikarnum og komst áfram í átta liða úrslit.

Þessi átján ára gamli strákur var í byrjunarliðinu og spilaði í þriggja manna framlínu ásamt þeim Takumi Minamino og Divock Origi. Minamino og Origi skoruðu mörkin í 2-0 sigri.

Það vita það kannski ekki allir en Blair er með sterka Íslandstengingu. Eldri bróðir hans er Marley Blair, leikmaður Pepsi Max deildar liðs Keflavíkur.

Marley er 22 ára gamall og með samning við Keflavíkurliðið til ársins 2023. Marley sjálfur var í tvö ár með unglingaliðum Liverpool frá 2016 til 2018 en fór þaðan til Burnley. Í febrúar síðastliðnum samdi hann síðan við Keflavík.

Marley spilaði tólf leiki með Keflavík í Pepsi Max deildinni en náði ekki að skora. Hann gaf stoðsendingu í síðasta leiknum sínum en fékk líka rautt spjald í leik á móti HK í 19. umferðinni.

KSÍ skráir reyndar eitt mark á Marley en það mark var þó augljóst sjálfsmark varnarmanns Skagamanna í lokaumferðinni og er skráð sjálfsmark hjá öllum miðlum nema hjá dómara leiksins Vilhjálmi Alvari Þórarinssyni á leikskýrslu.

Marley var með bróður sínum þegar Harvey skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við Liverpool fyrir ári síðan.

Harvey Blair fékk að spila fyrstu 55 mínútur leiksins með Liverpool í gær en fór af velli fyrir jafnaldra sinn Conor Bradley í stöðunni 0-0.

Blair hefur skorað fjögur mörk og lagt upp tvö til viðbótar með átján ára liði Liverpool. Hann spilaði einnig með nítján ára liðinu á móti Atletico Madrid í Meistaradeild yngri liða.

Blair var út á vinstri vængnum þar sem hann hefur verið að spila með átján ára liði Liverpool með góðum árangri. Hann hefur einnig spilað sex leiki með 23 ára liðinu í vetur.

Hann er því að fá tækifærin og aðeins spurning um hvort hann geti nýtt sér þau. Eldri bróðir hans gefur honum væntanlega góð ráð út frá því sem klikkaði hjá honum á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×