Sport

Það verða allir að sjá kántrýútgáfuna af Anníe Mist og Katrínu Tönju

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir með kúrekahattana sína.
Katrín Tanja Davíðsdóttir og Anníe Mist Þórisdóttir með kúrekahattana sína. Instagram/@katrintanja

Vinkonurnar Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir taka sjálfa sig ekki alltof alvarlega og það er jafnan mjög gaman hjá þeim og gaman í kringum þær. Þegar Texasbúar færðu þeim gjafir var aðeins eitt í stöðunni.

Anníe og Katrín eru nú mættar til Austin í Texas til að taka þátt í Rogue Invitational CrossFit mótinu. Þær æfðu fyrir mótið saman heima á Íslandi en flugu svo til Bandaríkjanna um síðustu helgi.

Í gær var komið að skráningu keppenda og keppendur fengu líka gjafir. Þar sem að mótið fer nú fram í Texas-fylki þá fengu allir keppendur kúrekahatta, kúrekasylgjur og kúrekastígvél.

Rogue Invitational CrossFit mótið er boðsmót og þar er bara boðið þeim sem náðu bestum árangri á síðustu heimsleikum. Mótið er orðið eitt það stærsta á tímabilinu og verðlaunaféð er með því hæsta sem sést.

Mótið hefst á morgun og stendur fram á sunnudag en í keppt verður í sjö greinum á þessum þremur keppnisdögum.

Það þarf ekki að spyrja af því hvað gerist þegar okkar konur voru komnar með fullgilda ástæðu til að skemmta sér og öðrum.

Anníe Mist og Katrín Tanja voru nefnilega fljótar að skella sér í kúrekafatnaðinn og buðu í framhaldinu saman upp á kántrýdans. Þær leyfðu aðdáendum sínum líka að sjá kántrýútgáfuna af sér því myndbandið af dansinum rataði inn á samfélagsmiðla þeirra.

Þarna má sjá þær í góðum línudansi undir kantrýlaginu Should've Been A Cowboy með Toby Keith. Það má sjá dans þeirra Anníe og Katrínar hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×