Innlent

214 greindust smitaðir um helgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjöldi fólks fór í sýnatöku um helgina og greindust 214 þeirra með jákvætt próf.
Fjöldi fólks fór í sýnatöku um helgina og greindust 214 þeirra með jákvætt próf. Vísir/Vilhelm

Alls greindust 214 innanlands í einkennasýnatökum eða sóttkvíar- og handahófsskimunum síðustu þrjá sólarhringa. 113 þeirra sem greindust innanlands síðustu þrjá daga voru í sóttkví við greiningu, eða 52,8 prósent. 101 voru utan sóttkvíar, eða 47,2 prósent.

Þetta kemur fram á Covid.is en vefurinn er ekki lengur uppfærður um helgar. Má nú sjá að 64 hafi greinst innanlands í gær, 75 á laugardag og 75 á föstudag.

757 eru nú í einangrun vegna Covid-19, en voru 653 á fimmtudag. 1.777 eru nú í sóttkví, en voru 1.418 á fimmtudag. 298 eru nú í skimunarsóttkví.

Sjö eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, en sami fjöldi og á fimmtudag. Einn er á gjörgæslu, en viðkomandi er ekki í öndunarvél. Enginn var á gjörgæslu vegna Covid-19 síðastliðinn fimmtudag. Meðalaldur inniliggjandi á sjúkrahúsi er nú 42 ár samkvæmt upplýsingum á vef Landspítalans.

Átján smit kom upp á landamærunum í gær – sautján virk smit í fyrri landamæraskimun og er niðurstöðu mótefnamælingar beðið í tilviki eins.

Nýgengi á smiti innanlands, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 220,1, en var 187,1 á fimmtudaginn. Nýgengi á smiti á landamærum er nú 24,8, en var 18,5 á fimmtudag.

Alls hafa 13.142 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá því faraldurinn hófst í lok febrúar á síðasta ári. Þá hafa 33 andlát verið rakin til Covid-19 hér á landi frá upphafi faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×