Sport

Sara óhrædd að taka áhættu með nýja krossbandið sitt í brimbrettabruni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir á fullri ferð á brimbrettinu.
Sara Sigmundsdóttir á fullri ferð á brimbrettinu. Instagram/@sarasigmunds

Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir eyðir tíma sínum í Dúbaí fram í desember og hefur verið að taka sér ýmislegt fyrir hendur milli allra æfinganna.

Sara fékk grænt ljós frá læknunum á dögunum, sex mánuðum eftir aðgerð á krossbandi, sem þýðir að hún gat byrjað að æfa á fullum krafti.

Fyrsta mót Söru eftir meiðslin verður Dubai CrossFit mótið rétt fyrir jól og hún tók þá ákvörðun að flytja út til Dúbaí og æfa þar fram að mótinu. Sara er ein af tuttugu CrossFit konum sem fékk boð á móti en hún vann mótið þegar það fór síðast fram árið 2019.

Það er ljóst að Sara hefur tekið græna ljósið bókstaflega því hún er óhrædd að láta reyna á nýja krossbandið sitt.

Þetta sést í færslu hennar hér fyrir neðan þar sem hún sýnir myndir af sér í brimbrettabruni.

Læknarnir hennar og kannski umboðsmaður hennar hafa kannsk hvítnað aðeins í framan að sjá Söru á fleygiferð á brimbretti á eftir bát en krossbandið hélt sem betur fer.

„Fyrsta sinn í brimbrettabruni (wakesurfing) .. eins gott að ég fékk grænt ljós fyrir viku síðan,“ skrifaði Sara sem sýndi flott tilþrif á brimbrettinu enda íþróttakona að guðs náð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×