Fótbolti

Dagný: Öll færin okkur voru eiginlega mörk í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir fagnar markinu sínu í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir fagnar markinu sínu í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var frábær sigur, fjögur mörk og að halda hreinu. Við höfum aldrei unnið Tékkland áður og vorum að ná í okkar fyrstu stig í riðlinum þannig að við erum yfir okkar glaðar með þennan sigur,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir einn af markaskorurunum íslenska landsliðsins í 4-0 sigri á Tékklandi í dag.

Dagný var í viðtali við Kristjörnu Arnarsdóttur í útsendingu RÚV frá leiknum í kvöld.

Íslenska liðið gerði tvisvar jafntefli við Tékkland í síðustu undankeppni HM sem varð liðinu dýrkeypt.

„Mér finnst persónulega við ekki hafa verið að spila okkar bestu leiki þegar við höfum verið að spila við Tékka. Öll færin okkur voru eiginlega mörk í dag. Við nýttum færin vel og vörðumst vel varnarlega. Aðstæður voru erfiðar í dag en mér fannst við gera þetta fagmannlega,“ sagði Dagný.

„Það er góð blanda í liðinu og mikil samkeppni um stöður. Það eru líka margar sem geta spilað margar stöður á vellinum. Það er smá lúxusvandamál sem hann hefur og hann getur því stillt okkur upp eftir andstæðingum,“ sagði Dagný.

„Það er langt síðan ég hef spilað djúp á miðjunni sem gefur mér líka ákvena reynslu líka. Það er fínt að allir séu að fá sína reynslu,“ sagði Dagný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×