Sport

Morðingja Agnesar Tirop enn leitað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Agnes Tirop eftir að hafa sett heimsmet í tíu kílómetra hlaupi í götuhlaupi í síðasta mánuði.
Agnes Tirop eftir að hafa sett heimsmet í tíu kílómetra hlaupi í götuhlaupi í síðasta mánuði. getty/Alexander Hassenstein

Lögreglan í Kenía leitar að eiginmanni Agnesar Tirop sem er grunaður um að hafa myrt hana í fyrradag.

Í gær var greint frá því að Tirop hefði fundist látin á heimili sínu. Hún var 25 ára. Eiginmaður Tirops, Emmanuel Rotich, er grunaður um að hafa myrt hana. Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Kenía sagði að Tirop væri fórnarlamb andstyggilegs glæps. Skjótri og víðtækri rannsókn var lofað.

„Hinn grunaði hringdi í foreldra Tirops og sagðist hafa eitthvað af sér. Svo við búumst við því að hann viti hvað gerðist,“ sagði Tom Makori, fulltrúi lögreglunnar, við AFP fréttastofuna. Rotich gengur enn laus og lögreglan leitar hans.

Makori sagði að Tirop hafi fundist látin í rúmi sínu sem var þakið í blóði sem og gólfið. Hún var með stungusár á hálsinum, væntanlega eftir hníf.

Í síðasta mánuði setti Tirop heimsmet í tíu kílómetra götuhlaupi í Þýskalandi. Hún kom þá í mark á 30:01 mínútum.

Tirop vann til bronsverðlauna í 10.000 metra hlaupi á HM 2017 og 2019 og lenti í 4. sæti í 5000 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. Þá vann hún gull í 5000 metra hlaupi á demantamótaröðinni í Svíþjóð fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×