Innlent

Leiðtogar ítalsks öfgaflokks handteknir á Covid-mótmælum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þúsundir mótmæltu græna passanum í Róm í gær.
Þúsundir mótmæltu græna passanum í Róm í gær. Getty/Antonio Masiello

Tólf voru handteknir af ítölsku lögreglunni, þar á meðal leiðtogar hægri öfgaflokksins Forza Nuova, eftir að til átaka kom á mótmælum í Róm vegna hins svokallað græna Covid-passa.

Ítalska ríkisstjórnin berst nú fyrir því að þingið samþykki tillögu um að allt vinnandi fólk þurfi að hafa svokallaðan grænan Covid-passa. Passarnir eru staðfesting á því að fólk hafi annað hvort verið bólusett fyrir kórónuveirunni, hafi fengið neikvætt á Covid-prófi nýlega eða hafi nýlega jafnað sig á smiti. Þegar passarnir voru fyrst kynntir þurfti fólk að sýna þá áður en það fór á ákveðna staði, til dæmis veitingastaði eða leikhús. 

Þúsundir leituðu á götur út í Róm í gær til að mótmæla tillögu ríkisstjórnarinnar. Sumir reyndu að brjótast í gegn um múr brynklæddra lögregluþjóna og inn á skrifstofu Mario Draghis, forsætisráðherra Ítalíu, en aðrir brutust inn á skrifstofur stéttafélagsins CGIL. 

Þá reyndu tugir að brjótast inn á bráðamóttökuna á Policlinico Umberto spítalanum í Róm og þurftu heilbrigðisstarfsmenn að byrgja sig inni til að verjast mótmælendum. 

Verði tillaga ríkisstjórnarinnar samþykkt mun allt vinnandi fólk þurfa að sýna fram á að það sé annað hvort bólusett, hafi farið í kórónuveiruskimun og fengið neikvætt eða að það sé nýbúið að jafna sig af smiti. Fari fólk ekki eftir þessu eftir 15. október næstkomandi muni það vera sent í tímabundið launalaust leyfi þó ekki sé hægt að reka það.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni í Róm slösuðust 38 lögreglumenn í gær. Meira en áttatíu prósent Ítala yfir tólf ára aldri eru fullbólusettir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×