„Með því að bera ratsjármynd úr SENTINEL-1 gervitungli COPERNICUS EU frá því morgun saman við eldri myndir koma skriður og vatnavextir í Köldukinn vel í ljós. Þetta eru miklar hamfarir,“ segir í Facebook-færslu hópsins.
Fyrri myndin, til vinstri, var tekin 23. september síðastliðin, en sú seinni, sem er til hægri, var tekin í morgun.
Á myndinni er búið að merkja við vatnavexti og skriðuföll sem urðu í gríðarlegu úrhelli á svæðinu um helgina. Vatnavextir eru merktir með bláu en skriður með grænu.
Á myndinni til hægri má glögglega sjá hversu margar skriður féllu og umfang þeirra, auk þess hversu mikið vatn hefur safnast saman á svæðinu.
Rýma þurfti sveitabæi á svæðinu og er sú rýming enn í gildi. Staðan verður endurmetin eftir fund almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og Veðurstofunnar í dag.