Benjamin Suárez fagnaði átta ára afmæli sínu á dögunum og því var vel fagnað á Suárez-heimilinu í Madríd.
Benjamin fékk nokkrar góðar gjafir en eflaust toppaði engin gjöfina sem hann fékk frá einum besta framherja í heimi, hinum norska Erling Håland. Hann sendi Benjamin áritaða Borussia Dortmund-treyju með númerinu níu aftan á.
Suárez þakkaði Håland fyrir gjöfina á Instagram og birti mynd af Benjamin alsælum með treyjuna góðu.
Suárez skoraði sigurmark Atlético Madrid þegar liðið vann AC Milan, 1-2, á San Siro í Meistaradeild Evrópu í gær. Mark Úrúgvæans kom úr vítaspyrnu á sjöundu mínútu í uppbótartíma. Þetta var fyrsta mark Suárez á útivelli í Meistaradeildinni í sex ár og tólf daga.
Dortmund vann 1-0 sigur á Sporting í Meistaradeildinni í gær. Håland var fjarri góðu gamni vegna meiðsla.