Erlent

Flúðu eiturgas frá eldgosinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldgosið á La Palma hefur verið tiltölulega hvikult síðustu daga.
Eldgosið á La Palma hefur verið tiltölulega hvikult síðustu daga. EPA/Angel Medina

Ekkert lát virðist á eldgosinu á La Palma á Kanaríeyjum þó hægt hafi á virkni í nokkra klukkutíma í gær. Um helgina barst mikið magn ösku frá eldgosinu svo loka þurfti flugvelli eyjunnar. Í gær dró einnig úr öskumyndun og sprengingum í eldgosinu en þar hefur sömuleiðis bætt í aftur.

Eldgosið hefur valdið miklum usla. Kvika hefur runnið yfir fjölda bygginga á leið sinni til sjávar og þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín síðan eldgosið hóst þann 19. september.

Ráðamenn á Spáni hafa heitið íbúum á La Palma fjárhagslegum stuðningi vegna eldgossins, samkvæmt frétt Reuters. Það hefur bæði valdið miklu tjóni og komið niður á ferðaþjónustunni á eyjunni.

Þessi fjárhagslegi stuðningur snýst að miklu leyti um að kaupa hús og húsgögn fyrir fólk sem hefur tapað heimilum sínum. Nærri því sex hundruð hús hafa eyðilagst í eldgosinu. 

Héraðsmiðillinn Diario de Avisos segir slökkviliðsmenn hafa þurft að flýja undan eldgosinu í dag vegna eitursmökks sem barst frá því. Þeir hafi unnið að því að bjarga verðmætum en hafi þurft frá að hverfa.

Gasið er sagt hafa myndast þegar kvikan rann yfir bananaekru þar sem töluvert var af ammoníaki og bór þríklóríð. Við það myndaðist eiturgasið og óttast sérfræðingar að sambærilegt eiturgas gæti myndast aftur.

Hér að neðan má sjá beina útsendingu frá eldfjallinu á La Palma.


Tengdar fréttir

Flugvellinum á La Palma lokað vegna ösku

Flugvellinum á La Palma hefur verið lokað vegna eldgossins á eyjunni. Mikil læti hafa verið í eldgosinu sem hófst á sunnudaginn og þykk öskuský leiddu til þess að flugvellinum var lokað.

Glóandi hraunið á La Palma sást úr geimnum

Appelsínugulur bjarmi hraunstrókanna frá eldgosinu á Kanaríeyjunni La Palma sást greinilega út um glugga Alþjóðlegu geimstöðvarinnar á braut um jörðu í nótt. Franskur geimfari um borð náði mynd af sjónarspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×