Nú munar 584 atkvæðum á Sigmari og Guðmundi Inga Kristinssyni, hjá Flokki fólksins, sem er síðasti kjördæmakjörni þingmaðurinn í Kraganum miðað við síðustu tölur. Ef Sigmar fer ekki inn sem kjördæmakjörinn þingmaður gæti tekið við enn lengri bið eftir að lokatölur liggi fyrir í öllum kjördæmum því þær gætu haft áhrif á jöfnunarsætin annars staðar.
„Það veit auðvitað enginn hvernig þetta fer. Það er bara fullt af fólki sem er í sömu stöðu og ég núna og bíður eftir því að sjá hvað kemur út úr þessu systemi,“ segir Sigmar í samtali við fréttastofu.
Hann kvaðst liggja í hálfgerðu móki fyrir framan sjónvarpið að reyna að halda sér vakandi.
Sat eins og asni eftir fyrstu tölur
„Þegar fyrstu tölurnar bárust þá sat ég náttúrulega bara eins og asni með Kristrúnu Frostadóttur í beinni útsendingu. Það voru hræðilegar tölur og þá var ég sannfærður um að þetta væri búið spil,“ segir Sigmar.
Viðreisn var með 7,7 prósent talinna atkvæða í fyrstu tölum úr kjördæminu og þá ekkert útlit fyrir að Sigmar næði inn. Mikið flökt hefur verið á tölunum í Kraganum í alla nótt en Viðreisn er með 12,1 prósenta fylgi þar samkvæmt fjórðu og nýjustu tölunum.
„Þannig ég átta mig engan veginn á því hvort að við eigum eftir að fara upp eða niður í lokatölunum,“ segir Sigmar. „Ég skil ekkert í þessum tölum. Af hverju þær hafa breyst svona svakalega í talningunni í Suðvesturkjördæmi.“
Hann segir kosningarnar hafa komið sér á óvart og að ríkisstjórnin hafi sigrað með afgerandi hætti. „Maður óskar ríkisstjórninni auðvitað til hamingju með það.“