Fyrsti upphitunarþátturinn er kominn á Vísi en hann má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Þar er hitað upp fyrir 2. umferð Olís-deildar kvenna.
Svava Kristín Grétarsdóttir fór yfir leikina sem framundan eru ásamt Sólveigu Láru Kjærnested.
Önnur umferðin hefst í dag með leik ÍBV og Aftureldingar í Vestmannaeyjum. Bæði lið töpuðu í 1. umferðinni og nýliðum Mosfellinga er spáð erfiðu gengi í vetur.
Tveir leikir eru á dagskrá á morgun og hefjast þeir báðir klukkan 16:30. Haukar og Fram eigast við í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 og Íslandsmeistarar KA/Þórs taka á móti Stjörnunni. Annarri umferðinni lýkur svo með leik HK og Vals í Kórnum á sunnudaginn.
Sólveig Lára er hvað spenntust fyrir leiknum á Ásvöllum og að sjá hvort Haukar geti strítt Fram sem allir spá Íslandsmeistaratitlinum. Bæði lið unnu sína leiki í 1. umferðinni.
Þá hefur Sólveig Lára trú á að sínir gömlu samherjar í Stjörnunni geti gert Íslandsmeisturunum skráveifu og jafnvel snúið heim frá Akureyri með tvö stig í pokahorninu.
Á mánudaginn klukkan 20:00 verður svo farið yfir 2. umferð Olís-deildar kvenna í Seinni bylgjunni.
Leikirnir í 2. umferð Olís-deildar kvenna
- Föstudagur kl. 17:00: ÍBV - Afturelding
- Laugardagur kl. 16:30: Haukar - Fram, beint á Stöð 2 Sport 3
- Laugardagur kl. 16:30: KA/Þór - Stjarnan
- Sunnudagur kl. 16:00: HK - Valur

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.