Sport

Sara: Engin stelpa á að þurfa að vera hrædd við að vera sterk eins og ég var

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir fór til London til að kynna nýju íþróttavörulínu sína og WIT Fitness.
Sara Sigmundsdóttir fór til London til að kynna nýju íþróttavörulínu sína og WIT Fitness. Instagram/@sarasigmunds

Íslenska CrossFit stjarnan Sara Sigmundsdóttir kynnti nýju vörulínu sína í London á dögunum og þar kom líka fram að hennar markmið er ekki aðeins að standa sig á gólfinu heldur líka breyta viðhorfi fólks.

„Ég vil gera mitt til þess að sjá til þess að breyta ímyndinni hjá sterkbyggðum kvenlíkama að hann sé eins eðlilegt og hvað annað,“ sagði Sara Sigmundsdóttir í kynningarviðtali á WIT Fitness síðunni.

„Þetta er mitt stærsta markmið. Ég vil að enginn þurfi að alast upp eins og ég að vera hrædd við að vera sterk. Að vera hrædd við að passa ekki í einhvern kassa,“ sagði Sara.

„Ég veit ekki hvort það telst vera hrokafullt að segja þetta en hvar er ég í dag? Ég sætti mig við það hvernig ég leit út og vonandi get ég verið fyrirmynd fyrir ungar stelpur sem eru hræddar við að fá vöðva,“ sagði Sara.

„Ég vil að þessar stelpur hugsi. Ég vil vera svona og ég er ekki hrædd við að vera svona. Ég vona að okkur takist að staðla slíkt við viðhorf og gera það að hinu venjulega. Það var hugmyndin mín við að hanna íþróttavörur sem tískuvörur,“ sagði Sara.

„Ég er mjög spennt og stressuð en það er gott að fara út fyrir þægindarammann. Þetta er mjög gott mál. Ef þú hefðir spurt mig fyrir ári síðan þá hefði ég aldrei getað séð mig í þessari stöðu,“ sagði Sara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×