Erlent

Falla frá á­formum um „bólu­setningar­vega­bréf“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sajid Javid er heilbrigðisráðherra Bretlands.
Sajid Javid er heilbrigðisráðherra Bretlands. Leon Neal/Getty

Stjórnvöld í Bretlandi eru hætt við að taka í notkun svokölluð bólusetningarvegabréf, líkt og til stóð að gera í lok þessa mánaðar. Vegabréfinu var ætlað að gera bólusettum kleift að sýna fram á bólusetningu, til þess að fá að fara á skemmtistaði og mannmarga viðburði.

Rekstraraðilar innan breska næturhagkerfisins höfðu gagnrýnt fyrirætlanir um að gera bólusetningu, fyrri Covid-sýkingu eða neikvætt PCR-próf að forsendu þess að fólk fengi að fara inn á skemmtistaði eða mannmarga viðburði.

Fyrir viku síðan sagðist Javid telja að fyrirkomulagið væri besta leiðin til þess að halda skemmtistöðum opnum. Nú hefur hann hins vegar sagt að ekkert verði af áformunum í bili, en skrifstofa Boris Johnson forsætisráðherra hefur þó lagt áherslu á að mögulega verði gripið til þessarar ráðstöfunar síðar.

BBC hefur eftir ráðherranum að ekki ætti að ráðast í ráðstöfunina „bara til þess að gera það.“ Þá sagði hann að honum hugnaðist ekki að fólk yrði „krafið um pappíra“ til þess að fá að sinna daglegu lífi sínu.“

„Við höfum skoðað málið almennilega, og á meðan við ættum að eiga þetta í handraðanum sem möguleika er ég ánægður að segja frá því að við ætlum ekki að hrinda áætlunum um bólusetningarvegabréf í framkvæmd.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×