Innlent

Ætla að sjá til þess að KSÍ taki trúverðug skref til úrbóta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, segir fyrirtækið munu eiga virkt og opið samtal við KSÍ, deila sjónarmiðum fyrirtækisins og sjá til þess að næstu skref sem tekin verða verði trúverðug.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, segir fyrirtækið munu eiga virkt og opið samtal við KSÍ, deila sjónarmiðum fyrirtækisins og sjá til þess að næstu skref sem tekin verða verði trúverðug.

Forstjóri Vodafone, eins styrktaraðila Knattspyrnusambands Íslands, segir það hafa verið afskaplega dapurt að fylgjast með atburðarásinni í kringum sambandið undanfarna daga. Atburðarásin sýni hve mikið mein kynferðislegt áreiti og ofbeldi sé í íslensku samfélagi. Fyrirtækið ætli að leggja sitt á vogarskálarnar og sjá til þess að trúverðug skref til úrbóta verði tekin.

Grátt ský er yfir íslenskri knattspyrnu þar sem formaður og stjórn hafa stigið til hliðar og framkvæmdastjóri er farinn í leyfi vegna óánægju með viðbrögð við ýmist ásökunum um brot landsliðsmanna eða staðfest tilfelli þess að miskabætur voru greiddar þolendum.

Landsbankinn, Icelandair, Coca Cola og Vodafone, styrktaraðilar sambandsins, hafa öll gert athugasemdir eða óskað eftir samtali við KSÍ í ljósi stöðunnar. Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone, segir það hafa verið afskaplega dapurt að fylgjast með atburðarásinni.

Mikil vinna fram undan

„Við höfum verið stoltur aðalstyrkaraðili UN Women og herferðar þeirra Fokk Ofbeldi um langt skeið. Stefna okkar í samfélagsábyrgð, sem snýr að jafnrétti og virðingu samrýmist engan veginn því sem hefur viðgengst í kringum karlalandslið KSÍ,“ segir Heiðar í tilkynningu.

Vinnubrögð KSÍ hafi verið ófullnægjandi og ljóst að mikil vinna sé fram undan hjá sambandinu og þörf á róttækum breytingum.

„Við höfum átt gott samstarf við KSÍ undanfarin ár, en Sýn hefur í nafni Vodafone verið styrktaraðili KSÍ frá árinu 2018, með það að markmiði að auka áhuga á knattspyrnu, styðja við starfsemi landsliða karla og kvenna og efla grasrótarstarf um allt land. Slíkt samstarf þarf ávallt að byggjast á trausti og ljóst er að það traust, sem og traust samfélagsins gagnvart sambandinu hefur því miður horfið á síðustu dögum.“

Opið og virkt samtal

Það skipti miklu máli að þessi umræða komi upp á yfirborðið og enn meira máli að það sé brugðist við. Nú hafi sambandið tækifæri til að taka þessi mál til róttækrar skoðunar. Heiðar segir Vodafone finna ríkan vilja víða til að gera það.

„Í samstarfi líkt og við eigum við KSÍ geta báðir aðilar mótað það og komið með tillögur til úrbóta. Við munum því á næstunni eiga áfram virkt og opið samtal við sambandið, deila okkar sjónarmiðum og sjá til þess að trúverðug skref til úrbóta verði tekin.“

Kolbeinn svaraði með yfirlýsingu

Karlalandsliðið mætir Rúmeníu á Laugardalsvelli í kvöld klukkan 18:45 í undankeppni HM 2022. Aktívistahópurinn Öfgar hefur boðað til mótmæla fyrir utan Laugardalsvöll. Boðað var til þeirra áður en stjórn KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri stigu til hliðar eða fóru í leyfi. Fróðlegt verður að sjá hvort og þá hve margir mótmæla við leikvanginn í kvöld.

Tólfan, stuðningssveit landsliðsins, ætlar að hafa algjöra þögn fyrstu tólf mínútur leiksins. Eru stuðningsmenn hvattir til að mæta með Fokk ofbeldi húfur eigi þeir slíkar.

Kolbeinn Sigþórsson, sem greiddi Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur og annarri konu miskabætur árið 2018, sagðist í yfirlýsingu í gær ekki kannast við að hafa beitt konurnar ofbeldi eða áreitt. Hegðun hans hefði hins vegar ekki verið til fyrirmyndar, hann beðið konurnar afsökunar og greitt þær upphæðir sem þær óskuðu eftir.

Þórhildur Gyða svaraði að hún harmaði að Kolbeinn sakaði hana um lygar.

Vísir er í eigu Sýnar hf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×