Sport

Arna Sig­ríður fimm­tánda í mark

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arna Sigríður er fyrsta íslenska konan til að taka þátt í hjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics.
Arna Sigríður er fyrsta íslenska konan til að taka þátt í hjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra, Paralympics. ÍF

Handahjólreiðakonan Arna Sigríður Albertsdóttir endaði í 15. sæti í götuhjólreiðum á Ólympíumótinu sem fer fram í Tókýó þessa dagana. Þetta var síðasta keppni Örnu Sigríðar á leikunum.

Hjólaðir voru 26,4 kílómetrar og kom Arna Sigríður í mark á 82,04 mínútum. Allir keppendur voru ræstir út í einu. Fór rásröð þeirra eftir tímatöku í gær þar sem Arna Sigríður endaði í 11. sæti.

Líkt og í gær voru aðrir keppendur þrautreyndir og töluvert eldri en Arna Sigríður sem á þó nóg inni. Í viðtali við íþróttadeild mbl.is sagðist hún stefna á að taka þátt á Ólympíuleikunum í París sem og mögulega vetrarleikum þegar fram líða stundir.

„Þátttaka Örnu Sigríðar á Paralympics er söguleg fyrir þær sakir að hún er fyrsta íslenska hjólreiðakonan sem keppir á Paralympics og líkast til í fyrsta sinn í sögunni sem íslenska fánanum er flaggað á hinni sögufrægu Fuji International Speedway kappakstursbraut,“ segir á Facebook-síðu Íþróttasambands fatlaðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×