Danski Ofurbikarinn er sambærilegt við Meistarar meistaranna hér á Íslandi þar sem að bikarmeistararnir mæta dönsku landsmeisturunum.
Aron Pálmarsson gekk til liðs við Aalborg í sumar, og það er óhætt að segja að hann hafi byrjað feril sinn í dönsku deildinni á jákvæðum nótum.
Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var munurinn aldrei meiri en þrjú mörk. Þegar að flautað var til hálfleiks höfðu Aron og félagar eins marks forskot, 15-14.
Þeir mættu hinsvegar grimmari til leiks í seinni hálfleik og náðu fljótt fimm marka forskoti. Leikmenn Mors Thy náðu að klóra í bakkann, en náðu aldrei að brúa bilið almennilega og Aalborg jók forskot sitt aftur jafnt og þétt.
Að lokum unnu Aron og félagar öruggan átta marka sigur, 33-25, og fyrsti titill Arons í búningi Aalborg kominn í hús.
Aron skoraði eitt mark í kvöld, en markahæstur í liði Aalborg var Buster Juul með sex mörk. Í liði Mors Thy var það Bjarke Christensen sem var allt í öllu og skoraði tíu mörk.