Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri er forsvarsmaður sviðslistastofnana sem hafa átt í samtali við yfirvöld.
200 manns mega koma saman í dag og er grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð milli ótengdra aðila.
„Við í menningarlífinu erum að vona innilega að það verði hægt að slaka á takmörkunum þannig að það verði auðveldara fyrir fólk að sækja menningarviðburði og sækja sér andlega næringu í menningarhúsin. Þar erum við auðvitað að horfa til að bæði verði hægt að taka á móti fleiri gestum í sal en slaka svolítið á fjarlægðarmörkum og öðrum takmörkunum sem eru í gildi,“ segir Magnús Geir.
Hvernig væri hægt að slaka á fjarlægðarmörkum?
„Eins og þetta er gert í mörgum löndum og flestum löndum í kringum okkur þá eru minni fjarlægðartakmarkanir og jafnvel engar. Þá koma hraðprófin stundum þar inn á móti, þannig að fólk staðfestir að það sé með nýlegt hraðpróf sem það hefur sótt sér með aðgengilegum og auðveldum hætti og á móti er slakað á þessum nálægðarmörkum,“ segir Magnús Geir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til í langtímaminnisblaði sínu að stærri viðburðir geti farið fram gegn því að gestir sýni fram á neikvætt hraðpróf. Bæði hann og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafa sagt í vikunni að tilefni sé til að slaka á því faraldurinn sé á niðurleið og ástandið stöðugt á Landspítalanum.
Magnús Geir vonast eftir að hægt verði, núna eða fljótlega, að hækka fjöldatakmarkið úr tvö hundruð upp í fimm hundruð.
„Og þannig verði komið eðlilegt umhverfi sem fyrst fyrir viðburðahald og menningarlífið. Það myndi breyta gríðarlega miklu og við finnum að fólk þyrstir í að mæta og koma til okkar. Við erum tilbúin og vonandi verður það hægt og að sjálfsögðu með mjög ábyrgu og yfirveguðu samkomuhaldi eins og verið hefur,“ segir Magnús Geir.