Í frétt Sky um málið segir að um 76 þúsund manns hafi sótt hátíðina og smituðust því rúmlega sex prósent hátíðargesta. Til samanburðar má nefna að svipað smithlutfall á 20 þúsund manna Þjóðhátíð myndi skila sér í tólf hundruð smituðum. Hátíðarhaldarar segjast hafa fylgt öllum sóttvarnarreglum sem í gildi eru á Englandi.

Öllum gestum hátíðarinnar, ellefu ára og eldri, var gert að sýna fram á einn þriggja valmöguleika: Bólusetningarvottorð, sem sýnir að seinni skammtur hafi verið gefinn minnst tveimur vikum fyrir hátíð, neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi sem er ekki meira en sólarhringsgamalt eða jákvæða niðurstöðu um fyrri sýkingu úr PCR-prófi.
Þeir gestir sem gistu á tjaldsvæði hátíðarsvæðisins þurftu einnig að undirgangast hraðpróf þegar hátíðin var hálfnuð. Gestir voru beðnir um að koma með sín eigin hraðpróf.
Engin grímuskylda var á hátíðinni en gestir voru hvattir til grímunotkunar.

Louis Gardner, bæjarstjóri Newquay þar sem hátíðin fór meðal annars fram, segir orsök fjölda smitaðra í Corwall orsakast af metfjölda ferðamanna í sýslunni og skort á sóttvörnum.
„Gististaðirnir okkar eru fullir, samkomustaðir eru fullir, það eru engar fjarlægðartakmarkanir í gildi. Ég held að þetta hafi allt samverkandi áhrif,“ segir Gardner.
Sóttvarnalæknir hefur varað við tilslökunum
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í viðtali við fréttastofu á dögunum að honum litist ekki á blikuna vegna afléttinga sóttvarnaraðgerða á Bretlandseyjum.

„Ég held að þetta sé mjög óvarlegt hjá Bretum að gera þetta svona. Þeir gætu átt eftir að fá þetta í bakið á næstunni. Það er mögulegt,“ segir Þórólfur.
Nú nokkrum dögum seinna virðist Þórólfur hafa haft rétt fyrir sér.
Þórólfur sagði jafnframt í viðtali í gær að hann teldi ekki rétt að fara sömu leið og nágrannaþjóðir okkar. Hann segir áhættu tekna með afléttingu fjöldatakmarkanna.
„Ég bendi á það, til dæmis, úrslitaleikurinn á Wembley, Íslendingar sem komu þaðan voru smitaðir og eiga stóran þátt í þessari bylgju sem við erum núna að ganga í gegnum,“ segir Þórólfur.
Hann segir betra að við nýtum okkur okkar eigin reynslu í baráttunni við faraldurinn.