Innlent

Átta tilkynningar um lömun eða skerta hreyfigetu eftir bólusetningu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Almannavarnir

Lyfjastofnun hefur fengið alls átta tilkynningar um lömun eða skerta hreyfigetu í kjölfar bólusetninga. Alvarlegust þeirra er frá ungri konu sem fjallað var um að hefði lamast fyrir neðan mitti, stuttu eftir örvunarbólusetningu með bóluefni Moderna.

Þetta staðfestir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, í samtali við fréttastofu.

„Þetta eru átta tilkynningar og þar með er þessi tilkynning með örvunarbólusetninguna. Hitt var bara eftir aðra bólusetningu,“ segir Rúna.

Andlitslömun, sem er ekki talin alvarleg aukaverkun þar sem hún gengur oftast til baka að fullu, er ekki talin inn í þessar tölur. Rúna segir þó að lömun og skert hreyfigeta gangi líka oftast til baka að fullu.

Lyfjastofnun hefur fengið tæplega 2.900 tilkynningar um aukaverkanir frá því bólusetningar við kórónuveirunni hófust hér á landi. Þar af eru 177 alvarlegar, en aukaverkanir teljast alvarlegar þegar heilbrigðiskerfið þarf að grípa inn í vegna þeirra. Til minni aukaverkana teljast til dæmis slappleiki, særindi á stungustað og fleiri veikindaeinkenni sem bólusett fólk kannast eflaust margt við.

Tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir eru að sögn Rúnu settar í forgang hjá stofnuninni, og rannsakað hvort orsakasamhengi sé á milli bólusetninga og aukaverkana.

Um helgina var fjallað um mál hinnar 19 ára gömlu Tinnu Katrínar Owen, sem lamaðist fyrir neðan mitti stuttu eftir að hafa fengið örvunarskammt af bóluefni Moderna. Það er alvarlegasta tilkynningin um lömun eftir bólusetningu sem Lyfjastofnun hefur borist.

Læknar telja að lömunin sé aðeins tímabundin og muni ganga til baka. Þá hefur ekki verið endanlega sýnt fram á orsakasamhengi milli bólusetningarinnar og lömunar Tinnu Katrínar.

„En það er bara ekkert annað sem mér dettur í hug að þetta gæti verið . Ég er ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma. Það finnst ekkert að mænunni minni. Það finnst ekkert í blóðinu mínu. Ég var ekki að gera neitt öðruvísi en bara að fara í þessa bólusetningu,“ sagði Tinna Katrín í samtali við fréttastofu um helgina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×