Fyrsta spurning blaðamanns sneri að því hvernig Ólafi fannst spilamennska sinna manna.
„Við spiluðum nú ekkert sérstaklega vel. Haukarnir gáfu okkur heldur betur leik en við erum komnir áfram og það er það sem skiptir máli. Þetta sýnir bara að við þurfum að mæta til leiks í hvern einasta leik en ég er bara ánægður með að vera kominn áfram.“
Fylkir hafði eins marks forystu í hálfleik en Haukarnir náðu að jafna leikinn á fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Ólafur var spurður að því hvort hann hafi verið ánægður með það hvernig hans menn brugðust við mótlætinu.
„Þeir brugðust ágætlega við. Við líka skorum snemma í leiknum og þá dettur ákefðin smá niður hjá okkur en seinni háfleikur var ekkert sérstakur hjá okkur en við unnum og það er það sem skiptir máli í bikarnum.“
Fylki tefldi fram nýjum leikmanni í kvöld honum Malthe Rasmussen. Hann skilaði heldur betur fínni vakt en hann skoraði mark og fiskaði vítið sem Fylkismenn komust yfir úr. Ólafur var spurður út í hans framlag en leikmaðurinn eiginlega datt upp í hendurnar á Fylkismönnum en hann er skiptinemi í Háskólanum í Reykjavík og Fylkir bauð honum á æfingu og eru hrifnir.
„Flottur strákur sem við fengum upp í hendurnar. Hann stóð sig mjög vel í dag og skoraði gott mark þannig að við erum mjög ánægðir með hann. Við heyrðum bara af honum og okkur bauðst að fá hann á æfingar og það er bara mjög jákvætt.“
Að lokum var Ólafur spurður að því hvort hann hefði einhverja óskamótherja í næsta leik.
„Nei bara að fá heimaleik. Það væri gaman en það er búið að vera stemmning undanfarið á heimaleikjum hjá okkur en annars er bikarinn bara bikarinn.“