Fótbolti

Tap fyrir meisturunum í fyrsta byrjunarliðsleik Barbáru

Valur Páll Eiríksson skrifar
Barbára Sól Gísladóttir og hennar stöllur í Bröndby töpuðu fyrir dönsku meisturunum í kvöld.
Barbára Sól Gísladóttir og hennar stöllur í Bröndby töpuðu fyrir dönsku meisturunum í kvöld. Vísir/Vilhelm

Íslenska landsliðskonan Barbára Sól Gísladóttir var í fyrsta sinn í byrjunarliði Bröndby í Danmörku er liðið tapaði 2-0 fyrir ríkjandi meisturum HB Köge á útivelli í 2. umferð dönsku deildarinnar í kvöld.

Barbára var lánuð til Bröndby frá Selfossi fyrir viku síðan og mætti beint í byrjunarliðið fyrir leikinn við HB Köge í dag. Bæði lið voru með þrjú stig eftir fyrstu umferðina eftir 5-1 sigur Bröndby á Kolding og 3-1 sigur Köge á Thy Thisted.

Barbára Sól var að mæta gömlum félaga sínum í dag en bandaríski markvörðurinn Kaylan Marckese stóð milli stanga Köge. Hún spilaði með Selfossi síðasta sumar.

Markalaust var í hálfleik í leik dagsins en hin bandaríska Kelly Fitzgerald kom HB Köge í forystu þegar rúmur stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik með marki eftir hornspyrnu.

Átta mínútum síðar, á 69. mínútu, tvöfaldaði landa hennar Maddie Pokorny svo forystu meistaranna eftir skyndisókn.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og heimakonur unnu 2-0 sigur. Þær eru því með fullt hús stiga eftir tvo leiki en Bröndby er með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×