Fótbolti

Lærisveinar Freys með fullt hús eftir stórsigur á Esbjerg

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sævar Atli spilaði sinn fyrsta leik í atvinnumennsku í dag, nokkrum dögum eftir að hafa skrifað undir.
Sævar Atli spilaði sinn fyrsta leik í atvinnumennsku í dag, nokkrum dögum eftir að hafa skrifað undir. Mynd/Lyngby

Sigurganga Freys Alexanderssonar sem stjóri Lyngby hélt áfram í dag er liðið vann sannfærandi 5-0 sigur á Esbjerg í Íslendingaslag. Vandræði á Esbjerg utan vallar virðast fylgja því innan vallar.

Frederik Gytkjær kom Lyngby í forystu sjö mínútum fyrir hálfleik og staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks. Varamaðurinn Svenn Crone skoraði tvö mörk til að koma Lyngby 3-0 yfir áður en sitt hvort markið frá Færeyingnum Petri Knudsen og Kasper Jörgensen gulltryggðu stórsigur Lyngby.

Freyr hefur farið frábærlega af stað í nýju starfi en Lyngby er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar, ásamt Helsingör. Þá vann Lyngby einnig bikarleik í vikunni og er Freyr því með 100% sigurhlutfall eftir fjóra leiki með liðið.

Allt hefur verið í bál og brand hjá Esbjerg þar sem leikmenn hófu uppreisn gegn þýska þjálfaranum Peter Hyballa. Fjölmargir í hópnum skrifuðu undir opið bréf þar sem einelti hans og fornaldarlegri meðferð á leikmönnum var mótmælt.

Andri Rúnar Bjarnason og Ísak Óli Ólafsson voru þó ekki á meðal þeirra sem skrifuðu undir en hvorugur þeirra var í leikmannahópi Esbjerg í dag.

Frederik Schram, sem er að stíga upp úr meiðslum, var varamarkvörður Lyngby en kom ekki við sögu. Það gerði hins vegar Sævar Atli Magnússon, sem kom inn af bekknum í sínum fyrsta leik fyrir Lyngby eftir skipti sín frá Leikni fyrr í vikunni.

Esbjerg er með eitt stig eftir fyrstu þrjá leiki sína í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×