Innlent

Hefja skimun á bólusettum með tengsl við Ísland

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka upp skimun bólusettra ferðamanna sem koma hingað til lands og hafa tengsl við Ísland.

Þetta tekur gildi 16. ágúst og verða allir skikkaðir í skimun innan 48 klukkustunda eftir komu til landsins. Gildir þetta um alla þá sem ferðast hingað og er með tengsl við Ísland. Unnið verður að nánari útfærslu þangað til að þessi ráðstöfun tekur gildi.

Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í beinni útsendingu hér á Vísi að loknum ríkisstjórnarfundi sem lauk rétt í þessu.

Klippa: Katrín Jakobsdóttir eftir ríkisstjórnarfund

Einstaklingar með tengsl við Ísland teljast:

  • Íslenskir ríkisborgarar
  • Einstaklingar búsettir á Íslandi
  • Einstaklingar með atvinnuleyfi á Íslandi
  • Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi

Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að fólk fari annað hvort í hraðpróf (antigen) eða PCR-próf, en nánara fyrirkomulag verður unnið í samráði við sóttvarnalækni.

Þá sagði Katrín að 27 þúsund manns sem hafa fengið boð í bólusetningu hafi ekki þegið hana. Katrín segir að verið sé að reyna að ná betur til þessa hóps. Aðspurð um hvað fælist í því sagði Katrín að meðal annars væri verið að sjá hvort hægt væri að fá nánari skýringar á því hvaða ástæður liggja að baki því af hverju þessi fjöldi hafi ekki þegið bólusetningu.

Klippa: Katrín og Svandís ræða við fjölmiðla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×